„Hefðu átt að hugsa sig tvisvar um“

Forsíða Charlie Hebdo eftir árásina á ritstjórnarskrifstofur skopmyndablaðsins.
Forsíða Charlie Hebdo eftir árásina á ritstjórnarskrifstofur skopmyndablaðsins. EPA

„Jót­land­s­póst­ur­inn og Charlie Hebdo hefðu átt að hugsa sig tvisvar um áður en móðgandi um­fjöll­un þeirra um Múhameðstrú var birt,“ seg­ir í um­sögn Beru­nessókn­ar um frum­varp þess efn­is að fella beri úr al­menn­um hegn­ing­ar­lög­um 125. gr. lag­anna en með henni er guðlast gert refsi­vert.

Skipt­ar skoðanir eru um frum­varpið sem Helgi Hrafn Gunn­ars­son, þingmaður Pírata, mælti fyr­ir. Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu seg­ir: „Tján­ing­ar­frelsið er einn af horn­stein­um lýðræðis. Það er grund­vall­ar­atriði í frjálsu sam­fé­lagi að al­menn­ing­ur geti tjáð sig án ótta við refs­ing­ar af nokkru tagi, hvort held­ur sem er af völd­um yf­ir­valda eða annarra.“

Í um­sögn Bisk­ups­stofu seg­ir: „Bisk­up Íslands tel­ur að laga­heim­ild­ir sem setja tján­ing­ar­frels­inu skorður með þess­um hætti stand­ist ekki nú­tíma viðhorf til mann­rétt­inda og að tján­ing­ar­frelsið sé einn af mik­il­væg­ustu horn­stein­um lýðræðis og frels­is. Það sé grund­vall­ar­atriði í frjálsu sam­fé­lagi að al­menn­ing­ur geti tjáð sig án ótta við refs­ing­ar.“

Get­ur leitt til and­legs of­beld­is

En ekki eru öll trú­fé­lög jafn já­kvæð í garð frum­varps­ins. Þannig seg­ir í um­sögn Hvíta­sunnu­kirkj­unn­ar Fíla­delfíu: „Eru það mann­rétt­indi að mega hæðast að átrúnaði annarra? Eru það nauðsyn­leg rétt­indi að mega op­in­ber­lega kynda und­ir lít­ilsvirðingu á hópi fólks vegna trú­ar þeirra? [...] Með því að af­nema nú­gild­andi lög um guðlast er verið að lög­leiða hat­ursorðræðu. Lög­in banna ekki frjálsa tján­ingu skoðana, þau banna ekki gagn­rýni á trú­ar­brögð, þau banna skrum­skæl­ingu, háð og for­dóma­hvetj­andi tján­ingu.“

Og kaþólska kirkj­an á Íslandi er sömu skoðunar og Hvíta­sunnu­kirkj­an: „Í lífi trúaðra manna er trú­in og guðsmynd hans veiga­mik­ill þátt­ur af til­veru og sjálfs­mynd hans og æru, sem lög­gjaf­an­um ber að vernda. Leiði tján­ing­ar­frelsi til þess að óheft megi smána sjálfs­mynd trúaðs ein­stak­lings þá er í raun á sama tíma verið að grafa und­an trúfrelsi manna sem ein­stak­linga og hóps. En það leiðir aft­ur til þess að ótak­markað og óheft tján­ing­ar­frelsi án ábyrgðar og án eðli­legra sam­fé­lags­legra tak­mark­ana get­ur leitt til and­legs of­beld­is gagn­vart ein­stak­lingi og hópi manna.

Kaþólska kirkj­an á Íslandi hvorki get­ur né mun samþykkja að opnað sé á þann mögu­leika að unnt sé að beita ein­stak­linga eða hóp ein­stak­linga and­legu of­beldi.“

Stein­inn tek­ur hins veg­ar úr þegar kem­ur að um­sögn Beru­nessókn­ar, sem er und­ir þjóðkirkj­unni. Í henni seg­ir: „Er al­farið á móti efni frum­varps­ins. Jót­land­s­póst­ur­inn og Charlie Hebdo hefðu átt að hugsa sig tvisvar um áður en móðgandi um­fjöll­un þeirra um Múhameðstrú var birt. Þótt laga­grein­in hafi ekki oft verið virkjuð, þarf þetta aðhald að vera til staðar.“

Van­trú og bisk­up Íslands sam­mála

Varla er hægt að halda því fram að bisk­up Íslands og þjóðkirkj­an séu sam­mála sam­tök­un­um Van­trú um margt. En það á við um af­nám 125. grein­ar al­mennra hegn­ing­ar­laga. Sama má segja um Siðmennt sem er fylgj­andi frum­varp­inu og rík­is­sak­sókn­ara en í um­sögn hans seg­ir: „Rík­is­sak­sókn­ari tek­ur und­ir rök flutn­ings­manna fyr­ir því að fella brott 125. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga nr. 19/​1940 og legg­ur til að frum­varpið verði samþykkt.“

Frest­ur til að senda inn um­sögn um frum­varpið renn­ur út á föstu­dag­inn og því allt eins víst að nokk­ur trú­fé­lög til viðbót­ar eigi eft­ir að láta skoðun sína á efni þess í ljós fyr­ir þann tíma.

Frétt mbl.is: Lög gegn guðlasti hættu­leg

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka