Hverjir ganga til liðs við Ríki íslams?

AFP

Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar eru þeir sem gengið hafa til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams einkum annarrar og þriðju kynslóðar innflytjendur sem játa íslam samkvæmt mati greiningardeildar Ríkislögreglustjóra á hryðjuverkahættu hér á landi. Flestir erlendir vígamenn frá Norðurlöndunum sem berjast í Sýrlandi og Írak eru ungir karlmenn sem hafa lítil eða engin fjölskyldutengsl við Sýrland.

„Margir þeirra eru fæddir og uppaldir á Norðurlöndum. Einnig eru sagðar fréttir af norrænum mönnum sem gerst hafa múslimar og þá hafa konur og börn ferðast til svæðisins. Sameiginlegt einkenni margra þeirra ungu norrænu karla sem vitað er að hafa ferðast til Sýrlands og Íraks er að þeir hafa hvorki framhaldsmenntun né fasta atvinnu. Þar að auki virðast einhverjir þeirra tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Þessi tiltölulega veiku tengsl við norrænt samfélag geta verið vegna ýmissa þátta,“ segir ennfremur í matinu.

Margir þeirra leiti að samfélagslegri viðurkenningu eftir öðrum leiðum en venjulega er tengd menntun og atvinnu. Meö öðrum orðum að þátttaka í hryðjuverkastarfsemi Ríkis íslams geti veitt þeim viðurkenningu og sjálfsmynd „sem er meira í samræmi við gildi þeirra og heimsmynd.“ Hins vegar sé einnig að finna í þessum hópi dæmi um menntaða einstaklinga „sem hafa áður verið vel aðlagaðir að norrænu samfélagi en hafa skorið á öll tengsl við nærumhverfi sitt og jafnvel móðurmál í kjölfar róttæklingar (radíkalíseríngar).

Fram kemur að erfitt geti reynst að ná til þessa hóps með félagslegum aðgerðum þar sem umræddir einstaklingar hafi í upphafi sterka samfélagslega stöðu en hafi síðan einangrað sig frá þjóðfélaginu með því að gerast bókstafstrúaðir vígamenn. Einnig séu staðfest tilfelli þar sem meðlimir í glæpahópum og þekktum alþjóðlegum vélhjólagengjum með tengsl við skipulagða glæpastarfsemi hafi farið til Mið-Austurlanda til þess að taka þátt í átökum þar. Tilgangurinn í þeim tilfellum sé persónuleg upphafning og spenna í gegnum þátttöku í bardögum og voðaverkum. „Ekki er því um að ræða að viðkomandi aðhyllist öfgafulla íslamska hugmyndafræði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert