Ólafur hefur hafið afplánun

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Þórður

Ólafur Ólafsson hefur hafið afplánun í opnu fangelsi hér á landi samkvæmt heimildum mbl.is Hann var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir þátt sinn í Al Thani-málinu svonefnda fyrra í þessum mánuði.

Þegar mbl.is hafði samband við Pál Winkel fangelsismálastjóra sagðist hann ekki geta tjáð sig um einstök mál, þ.e. mál Ólafs. 

Hann segir þó tiltölulega sjaldgæft sé að menn sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar óski eftir að hefja afplánun þegar í stað „Þegar það kemur upp leitumst við við að taka menn inn eins fljótt og mögulegt er,“ segir Páll. 

DV greindi fyrst frá málinu. 

„Fangelsismálastofnun gerir sér grein fyrir að menn hafa sterkar skoðanir á verkefnum stofnunarinnar. Við þurfum hins vegar að passa að vinna ekki eftir einhverri sérstakri stemningu sem er til staðar í samfélaginu, heldur aðeins eftir lögum og reglum. Það þurfum við að gera og gerum þegar við erum að ákveða hvar menn eru vistaðir. Allir eru jafnir fyrir lögunum og hvað varðar vistunarstað, reynslulausnir og svo framvegis,“ segir Páll.

Sá sem kemur til afplánunar í fyrsta skipti, agabrotalaus, er ekki í neyslu, uppfyllir tímaskilyrði til að fara í opið fangelsi og telst jafnframt ekki þurfa að afplána við öruggari aðstæður fer fljótlega inn í opið fangelsi, ýmist á Kvíabyggju eða Sogn, ef pláss er laust. „Fangelsisrýmum opnum hefur fjölgað á síðustu átta árum úr 14 plássum í 42 pláss. Hlutfall fanga sem þarf að vista í opnum fangelsum er nú hærra,“ segir Páll.

„Það er áhugavert að ýmist er opinber umræða þannig að við séum að fara of illa með menn með því að veita þeim ekki sálfræðiþjónustu, vista í fangelsum sem uppfylla ekki heilbrigðisskilyrði eða við erum að gera allt of vel með því að veita einhverjum reynslulausn eða vista hann í opnum fangelsum. Það er ekkert sem við getum gert annað en að vinna eftir lögum og reglum.“

Páll ítrekar að Fangelsismálastofnun þurfi oft að sitja undir gagnrýni af ýmsum toga. „Stundum er fjallað um að við séum að brjóta mannréttindi með því að geta ekki menn til afplánunar eins fljótt og auðið er og það er slæmt. Á sama tíma erum við hugsanlega gagnrýnd fyrir að taka menn fram yfir röð og þar með séu ekki allir jafnir fyrir lögunum. Við vinnum þannig að ef einhver óskar eftir að koma í afplánun, ljúka sínum málum eins fljótt og hann getur, þá gerum við það. Þá setjum við hann ofar á biðlistann. Það á jafnt við um mann sem er að koma inn í sína tuttugustu afplánun og þá fyrstu.“

Fangelsið að Kvíabryggju.
Fangelsið að Kvíabryggju. Gunnar Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert