„Samfélagsleg ábyrgð bara klisja“

Samsett mynd/Eggert

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lýsti eftir samfélagslegri ábyrgð stærstu fjármálastofnana landsins á Alþingi í dag. Tilefnið voru tilkynningar Arion banka og Íslandsbanka um mikinn hagnað á síðasta ári. Óskaði hann bönkunum til hamingju.

„Stóru bankarnir státa sig af samfélagslegum skyldum eða samfélagslegri ábyrgð. Hugtökin eru teygjanleg og það er jafnvel til staðar ákveðinn ómöguleiki þegar þau eru skilgreind. Það hefur því gjarnan verið til siðs að klára málið með því að veita nokkra styrki til góðra málefna. Það fer hins vegar minna fyrir ábyrgð bankanna gagnvart viðskiptavinum sínum. Viðskiptavinum sem halda þessum stofnunum gangandi á einn eða annan hátt,“ sagði Karl.

Þannig léti Arion banki íbúðakaupendur borga allt að 8% ársvexti á óverðtryggðum lánum í nær verðbólgulausu landi. Ársvextir af kreditkortareikningum væru 12%. Ef peningar væru lagðir inn á reikning í bankann væru vextirnir frá 0,1-1%. Tölurnar frá Íslandsbanka væru á svipuðum slóðum. Bankarnir væru með allt sitt á þurru á meðan stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins væru að berjast við bæta lífskjör almennings. Sakaði hann bankana um vaxtaokur.

„Hinn almenni borgari hefur ekkert val. Hann þarf að eiga viðskipti við stofnanir sem hafa aðeins eina hagsmuni að leiðarljósi, eigendanna. Hjá þeim er samfélagsleg ábyrgð bara klisja,“ sagði Karl ennfremur og bætti við að eigendurnir væru að vísu flestir andlitslausir.

Ásmundur Einar Daðason, samflokksmaður Karls tók undir með honum og minnti á að arður af rekstri bankanna tveggja rynni til þrotabúa gömlu bankanna og þar með kröfuhafa þeirra. Full ástæða væri fyrir því að skattleggja þrotabúin enn frekar en gert hefði verið.

Karl Garðarsson alþingismaður.
Karl Garðarsson alþingismaður. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert