Færa kostnað til ríkisins

Mögulega væri hægt að lækka flugmiðaverð um 1.700 krónur á …
Mögulega væri hægt að lækka flugmiðaverð um 1.700 krónur á hvern legg með tillögum hópsins. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Tillögur starfshóps um gjaldtöku í innanlandsflugi ganga í meginatriðum út á að færa kostnað frá flugfarþegum eða flugrekendum til ríkisins. Hópurinn leggur m.a. til að fella niður gjöld og virðisaukaskatt, bjóða flugleiðir út með ákvæði um hámarksgjald og veita flugfarþegum beinan skattalegan stuðning.

Innanríkisráðherra skipaði starfshópinn til að kanna gjaldaumhverfi áætlunarflugs innanlands og mögulegar leiðir til að lækka farmiðaverð. Hann tók til starfa í ágúst í fyrra og skilaði niðurstöðum sínum í þessari viku.

Hópurinn leggur til að skoðað verði að fella niður farþega- og lendingargjöld. Það muni kostar ríkissjóð um 400 milljónir króna á ári en myndi að meðaltali skila 1.200 króna lækkun á hvern floginn legg. Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna aðfanga gæti einnig mögulega lækkað verðið um nálægt 500 krónum miðað við meðalfarþegafjölda síðustu ár, þar með talin börn.

Einnig leggur hann til að skoðað verði að bjóða allar flugleiðir út og skilgreina í því leyfilegt hámarksverð en tryggja í þess stað lágmarksnýtingu. Þá bendir hann á að fordæmi sé frá Þýskalandi fyrir stuðningi við farmiðakaup íbúa á afskekktum svæðum með lækkun þjónustugjalda og skatta á almenningssamgöngur.

Á meðal þeirra leiða sem hópurinn nefnir til að hægt sé að fjármagna tillögurnar er að arðgreiðslur af rekstri Isavia á Keflavíkurflugvelli verði nýttar til að styrkja að fullu rekstrargjöld af flugvöllum innanlandskerfisins með færri en 200.000 farþega árlega. Að skattur á fríhafnarverslanir verði nýttur sem tekjustofn til að mæta endurgreiðslum þjónustugjalda í áætlunarflugi eða til farmiðakaupa.

Lagt er til að unnið verði að frekari markaðssetningu innanlandsflugs í ferðaþjónustu og millilandaflugvalla á landsbyggðinni til að styrkja rekstrargrundvöll og auka tekjur í kerfinu.

Sérstök umræða um innanlandsflugið fór fram á Alþingi í morgun en þar sagði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, meðal annars að afnám þjónustugjalda væri engin heildarlausn á háu verði og fækkun farþega í innanlandsflugi þar sem gjöld ríkisins væru lítill hluti af heildarkostnaðinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert