ASÍ segir að frá því neysluskattsbreytingarnar tóku gildi um áramót hafi matar- og drykkjarliður vísitölunnar hækkað um 1,9% en þegar undirliðir séu skoðaðir nánar megi sjá skýrar vísbendingar um að lækkun vörugjalda á sykri og sætindum (svokallaður sykurskattur) hafi enn ekki skilað sér að fullu.
Sem dæmi megi nefna að sætabrauð og kökur hafi hækkað í verði um 3,9% frá ármótum sem sé umfram hækkun á virðisaukaskatti og engin sjáanleg áhrif lækkunar á vörugjöldum á þessum vörum. Þá hafi sykur, súkkulaði og sætindi samtals lækkað um 4,8% frá því um ármót sem sé nokkuð minna en áhrif neysluskattsbreytinganna gefi tilefni til en einkum má rekja það til lítillar lækkunar á súkkulaði og sælgæti.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,67% í febrúar og er ársverðbólga óbreytt frá fyrra mánuði 0,8% að því er fram kemur í nýjum tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Húsnæðisverð er enn leiðandi í hækkun verðlags en vísitala neysluverðs hefur lækkað um 0,9% undanfarið ár sé húsnæðisliðurinn undanskilinn.
Breytingar á verðlagi í mánuðinum má að mestu rekja til þess að útsöluáhrif á fötum og skóm ganga til baka, húsnæðisverð heldur áfram að hækka og eldsneytisverð hækkar frá fyrra mánuði. Á móti vegur að flugfargjöld til útlanda og verð á mat- og drykkjarvörum lækkar frá því í janúar.
„Athygli vekur þó að lækkun á mat- og drykkjarvörum má helst rekja til lækkunar á kjöti og ávöxtum en áhrif af lækkun vörugjalda af sykri og sætum matvörum eru nokkuð minni en ætla mætti. Þá hafa bækur hækkað talsvert undanfarna mánuði umfram það sem hækkun virðisaukaskatts gefur tilefni til auk þess sem lítil áhrif sjást af afnámi vörugjalda í verðlagi á bílavarahlutum og byggingarvörum,“ segir á vef ASÍ.