Vaxandi hætta á hryðjuverkum á Íslandi að mati ríkislögreglustjóra var til umræðu á Alþingi í dag. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir lögregluna enn og aftur reyna að skapa ótta með fullyrðingum sínum en Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, sagði það forgangsmál að ræða þessi mál.
Guðlaugur Þór tók hryðjuverkaógnina upp undir liðnum störfum þingsins á Alþingi í morgun. Sagði hann merkilegt hversu litla umræðu það mat ríkislögreglustjóra að aukin hætta væri á hryðjuverkum hér á landi hefði fengið. Líta þurfi til Norðurlandanna til að sjá hvort breyta þurfi löggjöf og vinnureglum til að lágmarka hættuna.
Málið snúist um öryggi allra Íslendinga og það væri forgangsmál að þingmenn taki þessi mál fyrir með málefnalegum og yfirveguðum hætti.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, gerði viðtal við yfirmann greiningardeildar ríkislögreglustjóra í Kastljósi í gærkvöldi að umræðuefni í sama samhengi. Tilefnið væri nýleg skýrsla þar sem talið var að meiri ógn væri af hryðjuverkum á Íslandi og kallað var eftir auknum rannsóknarheimildum til að bregðast við.
Sagði þingmaðurinn þessar fregnir á skjön við upplýsingar Europol sem sýndu að hryðjuverkum hafi farið fækkandi undanfarin ár. Þá hafi ekki komið fram nein haldviss dæmi um þessa þróun í máli fulltrúa lögreglunnar heldur hafi aðeins verið að ræða um almennar staðhæfingar um að lögreglan hefði upplýsingar um hina og þessa menn sem gætu verið hættulegir.
Þá taldi hún sérkennilegt að einstaklingum sem væru tilbúnir að fremja hryðjuverk í nafni málsstaðar væri spyrt saman við fólk sem væri andlega veikt og ástæða væri til að óttast.
„Því miður verð ég að segja að mér fannst þessi málflutningur embættis ríkislögreglustjóra bera einkenni hræðsluáróðurs. Það tel ég að sé hættulegt þegar um svona mikilvægan og viðkvæma málaflokk eins og valdheimildir lögreglu er að ræða,“ sagði Steinunn Þóra.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði að sér hafi sérstaklega verið brugðið vegna þess sem stæðu í skýrslu greiningardeildarinnar um ákveðna hópa fólks sem lagt er til að verði skipað félagsleg úrræði. Þessir hópar væru skilgreindir sem anarkistar, íslamistar og róttækir hægri- og vinstrimenn sem séu mögulegir ógnvaldar ríkisins.
„Ríkislögreglustjóri leggur sem sagt til að sköpuð verði sérstök félagsleg úrræði fyrir aðila eins og mig sem er anarkista og einstaklinga sem verða fyrir áhrifum róttækni í landinu,“ sagði Birgitta.
Hann leggi til að myndaður verði sérstakur samráðsvettvangur lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda til þess að miðla upplýsingum um þessa einstaklinga sem kunna að ógna öryggi almennings auk þess sem lögreglan fái forvirkar rannsóknarheimildir til njósna.
„Hérna er lögreglan enn og aftur að reyna að skapa ótta rétt eins og í kringum Vítisengla. Hvar eru þeir núna og ógnin í kringum þá?“ spurði hún.