Bandarískir fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um nýuppgötvaða veiru, Bourbon-veiruna, sem sögð er bráðdrepandi. Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir sóttvarna hjá Embætti landlæknis, segir að veiran sé á rannsóknarstigi og að hún sé ekki skilgreind sem heilsuvá.
Veiran dregur nafn sitt af Bourbon-sýslu í Kansasríki í Bandaríkjunum, en íbúi þar fann skógarmítil á öxl sinni síðasta vor og lést 11 dögum síðar. Fyrir skömmu komust læknar við háskólasjúkrahúsið í Kansas að þeirri niðurstöðu að nýrri skæðri veirutegund væri um að kenna og hún hefði borist með mítlinum. Áþekk veira hefur valdið dauðsföllum í Asíu og Afríku, en þetta er í fyrsta skipti sem hennar verður vart á Vesturlöndum. Guðrún segir vel fylgst með skógarmítlum hér á landi, en samkvæmt vef Náttúrufræðistofnunar eru þeir að öllum líkindum orðnir landlægir hér á landi. „Bit þeirra valda helst tveimur sjúkdómum; Lyme-sjúkdómi og mítilborinni heilabólgu,“ segir Guðrún. „Enginn hefur smitast af mítilbornum sjúkdómi hér á landi svo vitað sé og Bourbon-veirunnar hefur ekki orðið vart hér.“
Að sögn Guðrúnar er Bourbon-veiran enn á rannsóknarstigi. „Við erum aðili að alþjóðlegu viðvörunarkerfi og fáum tilkynningar um það sem talið er heilsuvá. Það er ekki nóg að ný veira greinist til þess að teljast það,“ segir Guðrún. „En við fylgjumst vel með því sem er að gerast.“