Stefnt er að opnun 68 herbergja hótels á Tjarnarvöllum í Hafnarfirði í sumar og eru framkvæmdir innandyra hafnar.
Félagið JFK fasteignir keypti fasteignina Tjarnarvelli 3 í ársbyrjun en hún er í eigu fjárfestanna Kolbeins Össurarsonar og Jóns Friðgeirs Þórissonar. Kolbeinn segir kaupverðið trúnaðarmál en gefur þó upp að það hafi verið hagstætt. Félagið sem átti húsið var í eigu kröfuhafa. Húsið var byggt 2006 og 2007 og hefur staðið autt.
„Það er búið að selja lóðirnar í kring og er uppbygging í götunni að fara á fullt. Með því mun þjónustustigið í hverfinu hækka. Það hefur verið grínast með það í bankageiranum að þegar húsið Tjarnarvellir 3 yrði selt og færi í notkun væri kreppunni formlega lokið,“ segir Kolbeinn í umfjöllun um hóteláform þessi í Morgunblaðinu í dag.