Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði gagnrýni þingmanna Framsóknarflokksins á banka pínlega upp á að horfa. Áður hafði þingmaður flokksins gagnrýnt banka fyrir þau lánakjör sem þeir byðu þrátt fyrir mikinn hagnað. Helgi sagði flokkinn hafa haft tvö ár til að setja bönkunum skorður.
Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi bankana í ræðu undir liðnum störfum þingsins á Alþingi í morgun og tók undir orð samflokksmanns síns, Karls Garðarssonar, sem hjá í sama knérunn á þingi í gær.
„Þær ákvarðanir bankanna að bjóða upp á lakari lánakjör til einstaklinga og heimila er ekki ásættanleg, sérstaklega þegar við sjáum miðað við hagnaðartölurnar að svigrúmið er svo sannarlega til staðar. Það hefði verið afar jákvætt og kannski jafnvel fyrir ímynd þessara stofnana að sýna sanngirni í viðskiptum við einstaklinga og heimili í landsins. Að leyfa þeim að finna fyrir því svigrúmi sem virðist svo sannarlega vera til staðar,“ sagði Elsa Lára.
Þeir hefðu jafnframt bætt við nýjum gjaldskrárliðum sem kæmu harðar niður á þeim sem sæktu þjónustu í bankana. Það væru sérstaklega eldri borgarar og þeir sem gætu ekki notað netbanka.
„Það er orðið verulega pínlegt að fylgjast með hverjum framsóknarþingmanninum á fætur öðrum koma hér í ræðustól og kvarta undan bönkunum. Það verður að vekja athygli Framsóknarflokksins á því að þeir eru ekki í stjórnarandstöðu. Þeir eru í stjórnarmeirihluta og þeir hafa haft tvö ár til þess að setja þessum bönkum skorður, um þjónustugjöld, um vexti, um hagnað,“ sagði Helgi Hjörvar þegar hann tók til máls.
Bankarnir væru meðal annars með ríkisábyrgð frá ríkisstjórn þeirri sem framsóknarmenn sitja í. Það eina sem þingmenn flokksins hafi gert sé að auka svigrúm bankanna til hagnaðar. Þannig hafi þeir komið fram með frumvarp um að leyfa gengislán á ný.
Þá sagði Helgi að ekkert bólaði á frumvarpi um afnám verðtryggingar. Þingmenn flokksins reyni að skýla sér á bak við það að það komi til framkvæmda við lok kjörtímabilsins. Ástæðan fyrir því sé sú að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei fallist á að afnema verðtrygginguna og Framsóknarflokkurinn hafi ekki sett það sem skilyrði fyrir stjórnarmyndun.
„Af því að Framsóknarflokkurinn meinti ekkert með loforðinu um afnám verðtryggingarinnar og hefur bara skotið því á frest til loka kjörtímabilsins og mun þá grípa til einhverra málamyndaráðstafana til að geta sagst hafa byrjað á því sem hann hefur aldrei ætlað sér að klára eða ljúka að mestu,“ sagði Helgi.