Búa sig undir samningaviðræður

Frá baráttufundi framhaldsskólakennara á síðasta ári.
Frá baráttufundi framhaldsskólakennara á síðasta ári. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Nýtt vinnumat fyrir Framhaldsskólakennara var fellt í dag af framhaldsskólakennurum ríkisreknu skólanna og Tækniskólans. Mikil vinna hafði verið lögð í gerð vinnumatsins en Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segist þó ekki vonsvikin með niðurstöðuna.

„Lýðræðisleg niðurstaða er aldrei vonbrigði. Það var mín skoðun að það voru meiri hagsmunir fólgnir í því fyrir stéttina að samþykkja þetta kerfi en að hafna því. Ég áttaði mig alveg á því að það væru kostir og gallar við kerfið og þegar við kynntum þetta lögðum við öll spilin á borðið og félagsmenn tóku ákvörðun útfrá því.“

Guðríður segir að nýja vinnumatið hafi falið í sér miklar kerfisbreytingar á vinnutímaramma framhaldsskólakennara en að erfitt sé að ákvarða nákvæmlega hvað hafi orðið matinu að falli.

„Í sjálfu sér tel ég að það hafi verið nokkrir þættir sem urðu til þess að þetta var fellt með þessum hætti en það verður auðvitað að fara fram marktæk úttekt meðal félagsmanna hvað það var sem þeim hugnaðist ekki við þetta svo að við getum leitað leiða til að gera betur,“ segir Guðríður. Hún segir að samninganefndin muni koma saman á ný í næstu viku og þá verði farið yfir stöðuna.

„Við þurfum að fara yfir þetta mál okkar megin og svo þurfum við að funda með okkar viðsemjendum, í rauninni er kjarasamningurinn laus þar til annað um semst svo við þurfum að undirbúa okkur undir samningaviðræður,“ segir Guðríður.

„Ég geng ekkert sár frá borði þó svo að þetta hafi verið niðurstaðan, nú bara brettum við upp ermar því það er verk að vinna.“

Frétt mbl.is: 

Vinnumat framhaldsskólakennara fellt

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert