Mjög illa hefur sést til gosstöðvanna í Holuhrauni síðustu daga vegna veðurs. Gervitunglamyndir síðustu dægrin staðfesta þó að gos sé enn í gangi. Sjálfvirkur gasmælir á Blönduósi mældi 500 µgr/m³ (míkrógrömm á rúmmetra) af S02 (brennisteinsdíoxíð) í gær.
Þetta kemur fram í yfirliti vísindamannaráðs almananvarna sem fundaði í morgun.
Fram kemur, að áfram dragi úr jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn frá því á þriðjudag mældist 2,5 að stærð í gær fimmtudag kl. 01:59. Aðrir skjálftar voru minni en 2,0. Alls hafa mælst rúmlega 50 skjálftar í Bárðarbungu frá því á þriðjudag. Ekki hefur mælst skjálfti yfir 3,0 að stærð frá því 21. febrúar og ekki yfir 5,0 að stærð frá 8. janúar.
Í kvikuganginum hafa mælst um 60 skjálftar frá því á þriðjudag. Þeir stærstu mældust 1,4 og 1,3 að stærð. Rétt er að taka fram að það er mjög háð veðri hve margir smáskjálftar mælast.
Sig öskju Bárðarbungu í síðustu viku var um 5 cm á dag að teknu tilliti til ísskriðs inn að miðju öskjunnar.
GPS-mælingar við Vatnajökul sýna áframhaldandi hægar færslur í átt að Bárðarbungu, í samræmi við að kvika flæði enn undan bungunni.
Við Tungnafellsjökul voru 5 skjálftar, sá stærsti 1,7 að stærð. Við Öskju og Herðubreið mældust um 25 skjálftar, sá stærsti mældist 2,3 að stærð í Öskju í gær kl. 05:42. Sjálfvirkur gasmælir á Blönduósi mældi 500 µgr/m³ af S02 í gær.
Í dag eru líkur á að vart verði við gasmengun frá eldgosinu í Holuhrauni á svæðunum suðaustur af eldstöðinni, en síðdegis berst mengunin einnig til vesturs og suðvesturs. Á morgun (laugardag) berst hugsanleg gasmengun til suðvesturs og suðurs.
Gosið hefur staðið yfir í bráðum hálft ár. Verulega hefur dregið úr hraunflæði í Holuhrauni og hægt á sighraða öskju Bárðarbungu. Þrír möguleikar eru taldir líklegastir um framvinduna:
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.
Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur fyrir Bárðarbungu.
Næsti fundur Vísindamannaráðs verður þriðjudaginn 3. mars, 2015.