Áhersla lögð á samfélagsbreytingar

Njörður Sigurjónsson, lektor.
Njörður Sigurjónsson, lektor. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Kennsla í þremur nýjum námsleiðum hefst við Háskólann á Bifröst í haust. Ein þeirra kallast Byltingafræði og er sú námsleið jafnvel einstök í heiminum.

„Byltingafræðin er byggð á grunni HHS námsins okkar sem er blanda af heimsspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Þetta verður þverfaglegt nám þar sem lögð er áhersla á samfélagsbreytingar og hvaða grunn róttækar samfélagsbreytingar þurfa að hafa. Einnig verða skoðaðar breytingar innan félagasamtaka eða fyrirtækja í nærumhverfi okkar,“ segir Njörður Sigurjónsson, dósent við Háskólann á Bifröst í samtali við mbl.is.

„Með þessari námsleið erum við að reyna að búa til eitthvað nýtt, einhver tækifæri fyrir fólk sem vill gera eitthvað og finna einhverjar leiðir. Við viljum tengja það við gagnrýna samfélagsgreiningu og sjá hvaða aðstæður þurfa að vera fyrir hendi til þess að hrinda aðgerðum í framkvæmd.“

Ekki byggð á erlendri fyrirmynd

Njörður segir að byltingafræðin sé ekki byggð á sérstakri erlendri fyrirmynd. „Eftir því sem ég best veit er þessi námsleið alveg einstök í heiminum. En við byggjum þetta náttúrulega að hluta til á HHS náminu sem er byggt á erlendri fyrirmynd en sú leið hefur verið kennd hér við Bifröst í tíu ár,“ segir Njörður. „Við fléttum greinar þaðan inn í byltingafræðina.“

Að sögn Njarðar verða einnig nýjar áherslur í byltingafræðinni eins og leiðtogafræði og verkefnastjórnun. „Við viljum nýta þau hugtök sem koma úr stjórnunargreinum inn í þessa umræðu.“

Skólar geta fest í ákveðnu fyrirkomulagi

Hann segir að námsleiðin hafi verið lengi í undirbúningi en ekki sé langt síðan leiðin var gerð opinber. „Þetta er auðvitað alveg nýtt en það hefur verið mikill áhugi. Ég held að það sé mikilvægt fyrir háskóla að finna aðeins aðra fleti á því sem þeir eru að gera,“ segir Njörður. „Skólar eiga það til að festast í fyrirkomulagi og námsbrautum sem urðu til fyrir einhverjum áratugum. Fólk flykkist í hundruðum eða jafnvel þúsundum inn á námsbrautir sem henta þeim ekkert sérstaklega og er ekki endilega á þeirra áhugasviði,“ segir hann.

„Þetta er allavega ný leið að spurningum og hugmyndum um hvernig við getum skoðað samfélagið og hugsanlega breytt því.“

Byltingafræði er ekki eina nýja námsleiðin sem kennd verður á Bifröst í haust. Í haust verður hægt að sækja nám í Miðlun og almannatengslum og Stjórnmálahagfræði við Háskólann á  Bifröst og er nú opið fyrir umsóknir.

„Það er svipuð hugsun með þessar tvær námslínur eins og með byltingafræðina. Þær eru byggðar utan um og í tengslum við HHS námið. Það er byggt á þekktri erlendri fyrirmynd og hafa fjölmargir ráðherrar og framámenn í samfélaginu farið í gegnum það þó það sé ekki þekkt á Íslandi. Í  þessum námsleiðum nýtum við sameiginleg námskeið en bætum svo við og dýpkun áherslu á ákveðnum sviðum,“ segir Njörður.

Á vefsíðu háskólans kemur fram að stjórnmálahagfræði fáist við að greina flókið samspil markaða, laga, samfélags og hins opinbera, en hvergi eru til hreinir markaðir sem eru ómengaðir af íhlutun ríkisvaldsins. Kemur jafnframt fram að með aðferðum stjórnmálahagfræðinnar eru hagfræðilegir þætti settir í víðara félagslegt og stjórnmálalegt samhengi.

Hentar þekktum og lifandi starfsvettvangi

Á vefsíðunni kemur jafnframt fram að grunnnám í miðlun og almennatengslum sé tilvalið fyrir þá sem hafa áhuga á að vinna við miðlun upplýsinga, upplýsingaráðgjöf eða sinna upplýsingagjöf. Er þá átt við störf á sviði fjölmiðlunar eða almannatengsla, í opinberri stjórnsýslu, fyrir frjáls félagasamtök, stjórnmálaflokka, stofnanir og fyrirtæki af ýmsum toga. Fram kemur að lögð sé mikil áhersla á þjálfun í skriflegri og munnlegri framsetningu í náminu sem nýtist á margvíslegum starfsvettvangi.

„Þetta er náttúrulega mjög þekktur og lifandi starfsvettvangur. Það eru margir sem hafa áhuga  á öllum þessum miðlum og leiðum sem fólk notar til þess að tengjast. Það er alltaf þörf á námi eins og þessu,“ segir Njörður.

Hægt er að sækja um skólavist við Háskólann á Bifröst á vefsíðu skólans.

Námsleiðirnar þrjár verða kynntar á Háskóladeginum í húsnæði Háskólans í Reykjavík. Verður Háskóladagurinn þó jafnframt haldinn í Háskóla Íslands og Listaháskólanum. Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands kynna námsleiðir sínar í HÍ en HR og Háskólinn á Bifröst í Háskólanum í Reykjavík. Ókeypis verður í sérstakan Háskóladagsstrætó sem mun ganga á milli skólanna. 

Háskólinn á Bifröst býður upp á þrjár nýjar námsleiðir í …
Háskólinn á Bifröst býður upp á þrjár nýjar námsleiðir í haust. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka