Alls liggja 245 óafgreidd sakamál á borði ríkissaksóknara og hefur reynst erfitt að ná í skottið á málahalanum sökum stöðugrar fjölgunar verkefna. Embættið biðlar til Alþingis um tvo nýja ákærendur.
Í umsögn ríkissaksóknara um frumvarp til laga um meðferð sakamála og lögreglulög segir að þrátt fyrir að 555 sakamál, 203 kærumál vegna ákvarðana lögreglustjóra og um 100 Hæstaréttarmál hafi verið afgreidd á árinu 2014, þá dugi það ekki til að ná niður málafjöldanum og stytta afgreiðslu tíma sakamála, sem að meðaltali er um 150 dagar.
Þá segir að ef vel eigi að takast til við stofnun nýs embættis héraðssaksóknara sé nauðsynlegt að styrkja embætti ríkissaksóknara nú þegar þannig að unnt sé að ráða inn tvo ákærendur í því skyni að ná niður fjölda óafgreiddra sakamála. Kostnaður við einn ákæranda er um 1,2 milljónir króna á mánuði þannig að ríkissaksóknari fer fram á tæplega 30 milljón króna árlega aukafjárveitingu.