Nokkrir tugir manna eru meðlimir í lokuðum hóp á Facebook þar sem eiturlyf ganga kaupum og sölum. Svo virðist sem hópurinn sé einvörðungu ætlaður fyrir þá sem búa í Akureyri og nágrenni. Mbl.is fékk aðgang að hópnum í gegnum nafnlausa ábendingu fyrir skömmu en hópurinn var stofnaður í desember 2014.
Mbl.is hefur áður greint frá tilvist slíkra hópa auk þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nýlega unnið markvist að upprætingu þeirra. Vandinn er hinsvegar greinilega ekki aðeins bundinn við Reykjavík.
Amfetamín, kannabis og pólskur landi eru á meðal þeirra vara sem meðlimir hópsins auglýsa til sölu gegn greiðslu.
Vörur á við mjólkursykur eru einnig seldar með aðstoð síðunnar, og jafnvel sendar með póstkröfu frá Reykjavík, en mjólkursykur er einkum notaður til að drýgja fíkniefni í duftformi eins og til dæmis kókaín.
Við skoðun síðunnar virðast flestir meðlimir hópsins notast við dulnefni sem ýmist eru dregin af þekktum goðsagnapersónum, teiknimyndafígúrum eða þekktum einstaklingum úr íslensku samfélagi, lífs eða liðnum.
Þó lítur út fyrir að nokkrir meðlimir notist við eigin nöfn en þeir eru að sama skapi ekki gjarnir á að auglýsa fíkniefni til sölu. Erindi þeirra í hópinn virðist þannig einkum vera í hlutverki neytanda og líklega telja þeir sig ekki þurfa dulnefni af þeim sökum.
Auglýsingar á síðunni fá alla jafna ekki svör frá öðrum meðlimum, enda gefa auglýsingar yfirleitt upp símanúmer seljanda eða benda áhugasömum á að senda fyrirspurn með einkaskilaboðum á Facebook. Ljóst er því að mikill hluti viðskiptanna á sér stað að tjaldabaki og hópur sem þessi er að líkindum aðeins toppur ísjakans.
Samkvæmt heimildum mbl.is er lögreglan á Akureyri meðvituð um tilvist hópsins en ekki er vitað hvort hún hafi aðhafst nokkuð vegna þessa. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur á undanförnum vikum handtekið á annan tug manna og lagt hald á talsvert af fíkniefnum í aðgerðum sem beinast gegn sölu fíkniefna á samfélagsmiðlum.
Að mati lögreglu er umfang fíkniefnasölu á samfélagsmiðlum verulegt, en aðgerðunum verður framhaldið. Þess má geta að allnokkrum Facebooksíðum, sem hafa boðið fíkniefni til sölu, hefur verið lokað.
Hópurinn telur mun færri meðlimi en annar hópur sem mbl.is fjallaði um fyrr í febrúarmánuði. Engu síður hefur hópurinn þó verið virkur og ljóst má vera að hann er vissulega notaður til að greiða fyrir viðskiptum með fíkniefni manna á milli.
Fyrr í dag komu inn skilaboð frá einum forsprakka síðunnar þar sem hann segist hafa stofnað annan hóp fyrir sölu fíkniefna þar sem annar notandi hafi hótað að hafa samband við lögreglu og upplýsa um tilvist hópsins.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu lögreglu.
Sjá fyrri fréttir mbl.is: