Hugsanlega er tilefni til þess að lögregla beiti forvirkum rannsóknaraðferðum þegar markmiðið er að koma í veg fyrir hryðjuverk enda hefur það sýnt sig í nágrannalöndum Íslands, meðal annars hjá hinum norrænu þjóðunum, að slíkar heimildir voru nauðsynlega til þess að koma í veg fyrir slíkar árásir. Hefðu þær ekki verið fyrir hendi hefðu hryðjuverkaárásir óumdeilanlega verið fleiri.
Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Unni Brá Konráðsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, en tilefni umræðunnar var skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem kom út í síðustu viku þar sem fjallað var um mögulegar hryðjuverkaógnir gagnvart Íslandi. Innti Unnur ráðherrann eftir afstöðu hans til forvirkra rannsóknarheimilda.
Sigmundur lagði eftir sem áður áherslu á mikilvægi þess að farið væri varlega í þessum efnum og að farið væri eftir reglum réttarríkisins.