Hælisleitendurnir tveir sem Hæstiréttur hafnaði að úrskurða í gæsluvarðhald í síðustu viku eru enn á landinu. Þetta staðfestir Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins í samtali við mbl.is. Til stendur að senda mennina til Danmerkur en þangað til eru þeir undir eftirliti lögreglu.
Eins og fram hefur komið í fyrri fréttum hafnaði Hæstiréttur gæsluvarðhaldskröfu lögreglu yfir tveimur hælisleitendum sem hún taldi hættu stafa af. Annar þeirra hótaði meðal annars ofbeldisverkum og lýsti aðdáun á öfgasamtökunum Íslamska ríkinu. Gæsluvarðhaldskröfunni var hafnað þar sem lögreglan hafði ekki látið reyna á vægari aðgerðir áður eins og að gera mönnunum að halda sig á afmörkuðu svæði eins og heimild er til samkvæmt útlendingalögum.
Í samtali við mbl.is í síðustu viku staðfesti Jón að mennirnir væru í húsnæði og fæði á vegum íslenskra yfirvalda. Sagði hann jafnframt að mennirnir yrðu sendir til Danmerkur og fluttir þangað á grundvelli Dyflinnarsamningsins.
Fyrri fréttir mbl.is:
Verða framseldir á næstu dögum
Óheppilegt að þeir gangi lausir