„Meðal þess sem þeir leggja hvað mesta áherslu á, að því er manni virðist, er að afla sér upplýsinga um afstöðu stjórnvalda og hvað þau ætlist fyrir í þessum haftamálum til þess að geta þá brugðist við á þann hátt að þeir nái að hámarka hagsmuni sína og um leið hugsanlega draga úr eða veikja stöðu Íslands og samfélagsins samhliða losun hafta.“
Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Spurði hún um stöðuna á afnámi fjármagnshaftanna og hvort hann væri enn þeirrrar skoðunar að áætlanir um afnám haftanna yrðu að vera leynilegar í stað þess að almenningur væri upplýstur um þær.
Ráðherrann minnti á að miklir hagsmunir væru í húfi fyrir Ísland og íslensku þjóðina. Ekki væri síður um mikið hagsmunamál að ræða fyrir erlenda kröfuhafa gömlu bankanna. „Það er ekkert launungarmál að þeir aðilar gera ýmislegt til þess að gæta þeirra umfangsmiklu hagsmuna og hafa ráðið fjölmargt fólk til að starfa fyrir sig hér á landi, lögmenn, almannatengslafyrirtæki o.fl.“
Fyrir vikið væri hann enn þeirrar skoðunar „að mikilvægt sé að þessi vinna verði ekki gerð opinber fyrr en hún hefur verið kláruð eða er komin á það stig að ekki sé hætta á að hún verði á einhvern hátt skemmd, unnið á henni eitthvert það tjón sem mundi gera íslenska ríkinu erfiðara fyrir við að leysa úr höftunum á farsælan hátt fyrir allan almenning í landinu“.