Kynntar voru tillögður að nýskipan viðbragðs- og þjónustukerfis fyrir börn sem hafa sætt kynferðisofbeldi í Bretlandi í lávarðadeildinni í gær. Er rætt um að koma á fót allt að fimm barnahúsum að íslenskri fyrirmynd í London.
Á fundi í lávarðardeild breska þingsins voru kynntar tillögur sem meðal annars fela í sér að komið verði á fót allt að 5 barnahúsum að íslenskri fyrirmynd í London á næstu árum.
Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu flutti erindi og tók þátt í umræðum sem fram fóru undir stjórn Barónessu Stern. Bragi gegnir jafnframt formennsku í Lanzarote nefnd Evrópuráðsins en nokkur umræða varð um mikilvægi samnefnds Evrópusamnings.
Í ræðu sinni gerði hann árangri Barnahúss á Íslandi skil og fjallaði sérstaklega um framrás þess í öðrum Evrópulöndum. Nú eru starfrækt barnahús í 50 borgum, einkum á Norðurlöndum, en verði tillögurnar að veruleika má reikna með örri fjölgun þeirra í Bretlandi, að því er segir í tilkynningu frá Barnarverndarstofu.
Tillögurnar sem lagðar voru fram eru unnar af sérfræðingum við King´s College Hospital í London og hafa verið kynntar fagfólki í ýmsum stofnunum. Í skýrslunni sem fylgdi tillögunum er þess m.a. getið að hugmyndir um starfsemi barnahúss nýtur víðtæks stuðnings, einkum á meðal lækna. Tillögunum verður m.a. beint til borgarstjórna í London til frekari meðferðar en London skiptist í 32 borgarhluta með 300 – 500 þús íbúa hver sem þykja svæði af hæfilegri stærð fyrir starfssemi barnahúsa.