Ekki liggur fyrir hvenær áfengisfrumvarpið verður tekið til annarar umræðu á Alþingi að sögn Einars K. Guðfinnssonar, forseta þingsins, þar sem beðið er eftir því að öll álit úr allsherjar- og menntamálanefnd skili sér.
Frumvarpið var afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd á föstudaginn. Þó að meirihluti hafi verið fyrir því að afgreiða frumvarpið úr nefndinni stóðu aðeins þrír nefndarmenn af níu að meirihlutaáliti á því eins og mbl.is greindi frá fyrir helgi. Þrátt fyrir að frumvarpið hafi ekki notið stuðnings meirihluta nefndarinnar var því engu að síður vísað til annarar umræðu. Gagnrýnt hefur verið að frumvarpið hafi verið afgreitt úr nefnd á meðan aðalmenn andsnúnir því voru fjarverandi.
Frumvarpið, sem heimilar sölu áfengis í verslunum, var lagt fram á þingi síðasta haust og er fyrsti flutningsmaður Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Leyfi til sölu á áfengi verður samkvæmt því ekki einungis bundið við bjór og léttvín heldur verður öll sala leyfð að ýmsum skilyrðum uppfylltum.