Langflestir ánægðir með göngugöturnar

Frá Laugavegi.
Frá Laugavegi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Langflestir Reykvíkingar sem spurðir voru í þjónustukönnun sveitarfélaganna, sem Capacent framkvæmdi, eru jákvæðir gagnvart göngu- og sumargötum í miðborginni eða 76%. Aðeins 9% voru neikvæðir, aðrir hlutlausir. Fólk á aldursbilinu 18-44 er hlynntara slíkum götum en aðrir aldurshópar. Íbúar í Vesturbæ, Miðborg, Hlíðum, Laugardal, Háaleitis- og Bústaðahverfi eru spenntari fyrir göngugötum en íbúar í öðrum hverfum, segir í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar lagði fyrir fimm aukaspurningar í þjónustukönnun sveitarfélaga sem gerð var í desember 2014 og spurði þar um viðhorf til göngugatna. Um það bil eitt þúsund Reykvíkingar svöruðu sem telst vera um 60% svarhlutfall.

Reykjavík sem vistvæn borg

Spurt var „Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: Reykjavík er vistvæn borg.“

Niðurstaðan var að 36% telja svo vera en 39% tóku ekki afstöðu og 24% telja svo ekki vera. 55 ára og eldri eru meira sammála þessari fullyrðingu en yngra fólk. Fulltrúi Capacent, sem framkvæmdi könnuna, telur að sennilega þurfi að kynna betur hugtakið „vistvæn borg“, fyrst svo margir voru hlutlausir.

Laugardalur vinsælasta útivistarsvæðið

Þá var spurt „Hefur þú heimsótt neðangreind útivistarsvæði Reykjavíkurborgar á sl. 12 mánuðum?“

Laugardalurinn reyndist vinsælastur meðal borgarbúa og höfðu 73% aðspurðra heimsótt hann, næst í röðinni var Tjörnin með 64%, Elliðaárdalur með 57% og næst á eftir komu Öskjuhlíðin, Heiðmörk, Klambratún og Fossvogsdalur. Fæstir höfðu heimsótt Rauðhóla. Fleiri konur en karlar virtust nota Laugardalinn til útivistar og flestir sem þangað fóru voru íbúar í Laugardal, Háaleiti og í Bústaðahverfi.

Ferðavenjuspurningar

Tvær spurningar lutu að ferðavenjum, en sennilega hefur það marktæka þýðingu að þessi könnun var gerð í desember, en í nóvember 2013 og í október 2012. Það truflar samanburð sökum ólíkra veðurskilyrða í þessum mánuðum. Umhverfis- og skipulagssvið hefur spurt þessara spurninga undanfarin ár vegna söfnunar á upplýsingum.

Spurt var: „Með hvaða hætti fór barnið þitt/börnin þín í grunnskólann síðast þegar það/þau sóttu skóla?“

Flest börn ganga í skólann, en umhverfis- og skipulagssvið hefur unnið að því markvisst undanfarin ár að bæta göngu- og hjólaleiðir í skóla borgarinnar, eftir ábendingum frá skólabörnum. 68% barna gengu í skólann í desember 2014 en 73% í nóvember árið áður. 27% þeirra var skutlað með einkabíl í desember 2014 en 22% árið áður.

Einnig var spurt: „Með hvaða hætti ferðast þú að jafnaði til vinnu eða skóla á morgnana?“

73% keyrðu sjálfir eða voru farþegar í bíl. Ekki eru miklar breytingar sjáanlegar á þessum lið frá árunum á undan. Þó kemur fram að konur eru líklegri en karlar til að ferðast með strætó og karlar líklegri en konur til að hjóla. Hlutfall þeirra sem ferðast á bíl sem bílstjórar fer úr 53% í 47% hjá fólki á aldrinum 18-34. Reykjavíkurborg gerði ítarlega ferðavenjukönnun 2014 í samstarfi við Vegagerðina þar sem fram kom að æ fleiri hjóla og ganga til og frá vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka