„Það er bráðnauðsynlegt að koma á langtímaáætlun í þessum málaflokki en ekki síður að taka til við að bregðast við aðsteðjandi bráðavanda. Til þess þarf samstillingu og samstöðu,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag. Vísaði hún þar til stöðu ferðaþjónustunnar og samspil hennar við náttúruna. Forystuleysi væri í þessum efnum og stjórnarmeirihlutinn réði ekki við málið.
„Við þurfum virkilega á samstillingu og einurð að halda. En það sem við búum við hér er skortur á yfirsýn og skortur á verkstjórn. Það er óþægilegt og það er vandræðalegt fyrir ríkisstjórnina og fyrir stjórnarmeirihlutann, óháð pólitískum eða efnislegum markmiðum, en það sem verra er er að hér eru svo gríðarlega mikil verðmæti í húfi, landið, náttúran og öflug atvinnugrein, ásýnd landsins og ímynd atvinnugreinarinnar, allt er þetta í húfi en enginn hefur yfirsýn,“ sagði hún ennfremur.
Vísaði hún til þess að í þinginu væru fjölmörg mál sem vörðuðu náttúruvernd og ferðaþjónustu sem væru til umfjöllunar í ýmsum nefndum. Bútasaumur væri nálgunin í þeim efnum og hættan væri viðvarandi að þingmenn ræki af leið í þeim efnum. „Ögurstundin er núna og þörfin fyrir heildarsýn er núna. “