Segja að leita hefði átt álits foreldra

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Í úttekt sem gerð var á sameiningum skóla í Reykjavík fyrir nokkrum árum var ekki leitað álits foreldra. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði segir marga foreldra enn ósátta við hvernig staðið var að málum á sínum tíma.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir verkefnið hafa verið flókið, í úttektinni komi fram ýmsar ábendingar um hvernig gera megi betur og læra þurfi af reynslunni. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn leggja til að gerð verði ný úttekt þar sem lögð verði áhersla á hvernig staðið var að samskiptum og samráði við foreldra. Þeirri tillögu var vísað til áframhaldandi meðferðar í skóla- og frístundaráði á fundi borgarstjórnar í fyrradag.

Sameiningin hófst 2011 og náði til 11 grunnskóla og 24 leikskóla. Úttektin var gerð af Intellecta í október í fyrra. „Þetta er vel unnin úttekt, sem sýnir svo ekki verður um villst að illa var staðið að sameiningarferlinu,“ segir Kjartan.

Takmörkuð upplýsingagjöf

Hann gagnrýnir að álits foreldra barna í þeim skólum sem um ræðir hafi ekki verið leitað. „Hugur foreldra hefur lítið sem ekkert verið kannaður. Foreldrar sem hafa kynnt sér úttektina eru undrandi á þeim fullyrðingum í úttektinni að vel hafi verið staðið að samráði við hagsmunaaðila. Þeir kannast ekki við það,“ segir Kjartan. Hann segist enn heyra á foreldrum barna í viðkomandi skólum að þeir séu ósáttir við lítið samráð og takmarkaða upplýsingagjöf á sínum tíma.

Skúli segir vissulega rétt hjá sjálfstæðismönnum að hugur foreldra hafi ekki verið kannaður sérstaklega í úttektinni. „En viðhorf þeirra koma fram með öðrum hætti,“ segir Skúli. Hefði átt að kanna þau sérstaklega? „Það hefði líklega mátt gera það. En ég held að það hefði litlu bætt við niðurstöður úttektarinnar.“

Skúli segir starfsánægjukannanir sem hafa verið gerðar í skólunum sem voru sameinaðir sýna að þar sé starfsánægja ekki minni en í öðrum skólum. „Það er ágætis vísbending um að þetta hafi gengið vel. En þetta eru flókin og erfið verkefni. Í álitinu koma fram ýmsar ábendingar um hvernig hægt sé að gera betur í þessum málum í framtíðinni og ég hef aðallega áhuga á að læra af reynslunni. Þarna var farið af stað með mörg sameiningarverkefni en þeim var þó fækkað um 75% í samráðsferlinu. Hafa ber í huga að þessar umfangsmiklu aðgerðir komu ekki síst til út af hruninu þegar tekjur borgarinnar drógust gríðarlega saman og leita þurfti allra leiða til að nýta fjármuni betur án þess að skerða grunnþjónustuna,“ segir Skúli.

Byggist á samtölum

Eitt af því sem Kjartan gerir athugasemdir við er að skýrslan byggist að mestu á trúnaðarsamtölum við 17 einstaklinga og 15 þeirra séu ýmist einstaklingar sem hafi beitt sér pólitískt fyrir þessum breytingum eða hafi borið ábyrgð á þeim sem embættismenn. „Þannig að það var ekki beint við því að búast að þau færu að gagnrýna eigin störf í úttektinni,“ segir Kjartan.
Skúli Helgason, borgarsfulltrúi Samfylkingarinnar.
Skúli Helgason, borgarsfulltrúi Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert