Salmann Tamimi, varaformaður Félags múslima á Íslandi, segir ekki koma til greina að félagið þiggi fjármagn frá Sádi-Arabíu. Þetta skrifar hann við færslu Bjarkar Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, á Facebook.
Eins og mbl.is hefur greint frá hyggst Sádi-Arabía veita 135 milljónum til byggingar mosku Félags múslima á Íslandi og í kjölfarið varpaði Björk fram spurningu á Facebook sem hún beindi til Salmanns.
„Salmann Tamimi. Þurfum við/þið að taka upp afturhaldsskoðanir Sádí-Arabíu samhliða þessari fjármögnun? Getur þú róað þá sem áhyggjufullir eru?“ skrifaði Björk.
Salmann svaraði stuttu síðar með þeim orðum að félagið myndi aldrei þiggja gjöf frá ríkinu.
„Félag múslima á Íslandi mun aldrei þykkja nein gjöf frá fasista rikið S.A. Við vörum aldrei spurðir og viljum ekki hafa neit frá þeim. Við virðum SA þjóðin og mun hjálpa þeim með þeirra baráttu,“ skrifar Salmann.
Formaður félagsins, Ibrahim Sverrir Agnarsson, sagðist í samtali við mbl.is fyrr í kvöld aðeins hafa heyrt af fjármögnuninni í gegnum fjölmiðla. Hann útilokaði ekki að félagið myndi þiggja gjöfina en sagði það ekki koma til greina ef henni fylgdu skilmálar sem skertu sjálfstæði félagsins.