Árni Páll efast um ESB og evruna

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Fram kom í máli Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi að hann nærði með sér efasemdir um Evrópusambandið og evruna. Ef eitthvað hefðu þær efasemdir farið vaxandi í seinni tíð. Frá þessu er greint á vefsíðu stöðvarinnar en Árni var í viðtali í þættinum Þjóðbraut undir stjórn Páls Magnússonar.

Haft er eftir Árna að horfa yrði til þess að ef Íslendingum byðist eitthvað betra en innganga í Evrópusambandið, til þess að auka hagsæld og lífsgæði þjóðarinnar, væri eðlilegt að skoða það. Árni sagði Ísland þegar vera aðila að allri helstu löggjöf sambandsins og hugsanlega þyrftu Íslendingar ekki á afganginum að halda ef annað betra væri í boði. Þjóðin nyti þegar margra helstu kosta þess að ganga í Evrópusambandið í gegnum aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Mbl.is ræddi við Árna Pál á miðvikudaginn vegna gagnrýninna ummæla Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra og formanns Alþýðuflokksins, um Evrópusambandið þar sem hann sagði meðal annars að sambandið glímdi við mikil innanmein og að Íslendingar væru ekki á leiðinni þangað inn. Árni Páll taldi þó Jón Baldvin ekki vera orðinn afhuga inngöngu í Evrópusambandið.

Frétt mbl.is: Jón Baldvin ekki orðinn afhuga ESB

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert