Rammi hf. í Fjallabyggð hefur samið um smíði á nýjum frystitogara hjá Tersan-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi fyrir jafnvirði 5,5 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að hann verði afhentur í desember 2016.
Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma, segir að tími hafi verið kominn til að endurnýja skipakost fyrirtækisins, en nýja skipið leysir af hólmi frystitogarana Mánaberg, 43 ára, og Sigurbjörgu, 36 ára, að því er fram kemur í umfjöllun um skipasmíði þessa í Morgunblaðinu í dag.
Frystitogurum hefur fækkað í flotanum undanfarin ár, en Ólafur segist sannfærður um að fyrirtækið sé á réttri leið með því að endurnýja skipakostinn með nýju og fullkomnu frystiskipi. Sem rök nefnir hann samsetningu aflaheimilda fyrirtækisins, samfélagslegar aðstæður í Fjallabyggð og markaði sem Rammi hafi byggt upp erlendis fyrir afurðir sínar.