Krefst ekki refsingar í málinu

mbl.is/Hjörtur

Málskostnaður vegna LÖKE-málsins fellur á ríkið og ekki verður gerð krafa um refsingu í málinu af hálfu ákæruvaldsins. Þetta kom fram við aðalmeðferð málsins í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur að sögn Garðars St. Ólafs­son­ar verj­anda lög­reglu­manns sem ákærður er í mál­inu. Ákæruvaldið fer engu að síður fram á sakfellingu mannsins.

Þrír einstaklingar höfðu upphaflega stöðu grunaðra í málinu en það snerist um meintar ólögmætar uppflettingar á nöfnum tugua kvenna í mála­skrár­kerfi rík­is­lög­reglu­stjóra. Fallið var frá málunum gegn tveimur þeirra, lögmanni og starfsmanni upplýsingatækifyrirtækis, síðasta sumar en lögreglumaðurinn ákærður. Í gær var hins vegar fallið frá fyrsta ákæruliðnum sem sneri að hinum meintu uppflettingum en annar ákæruliðurinn látinn halda sér en hann snýst um að lög­reglumaður­inn hafi greint nán­um vini frá því á sam­skipta­vefn­um Face­book að hann hafi verið skallaður sem tengd­ist lög­reglu­máli og er að mati sak­sókn­ara var brot á trúnaði.

Garðar segir að fyrsti málsliðurinn hafi verið tilkominn af annarlegum hvötum og nú hafi það verið upplýst. Ekki hafi verið staðið með eðlilegum hætti að rannsókn málsins hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hins vegar hafi embætti Ríkissaksóknara ekki haft þor til þess að falla alfarið frá málinu og „rassskella“ þar með lögregluna. Embættið vilji frekar að dómari sýkni í málinu. En með því að fara þess á leit við dómara að ríkið greiddi málskostnaðinn og engin krafa yrði gerð um refsingu í málinu væri í raun verið að viðurkenna sakleysi skjólstæðings hans.

Aðspurður segist Garðar eiga von á því að lögreglumaðurinn snúi aftur til starfa sama hvernig málið fari úr þessu þar sem ekki sé gerð krafa um refsingu. Menn hafi snúið aftur til starfa í lögreglunni eftir að hafa verið dæmdir til þess að greiða sektir en engin refsikrafa sé gerð í þessu tilfelli. Sjálfur fari hann fram á sýknun skjólstæðings síns enda hafi hann ekki gert neitt rangt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert