Eftir að hafa setið við taflborðið frá því klukkan níu í morgun er ekki hægt að sjá að Hrafn Jökulsson sé orðinn þreyttur á að tefla, sem er líklega gott þar sem hann mun tefla við áskorendur til miðnættis í kvöld og á morgun og mun mæta um 200 andstæðingum alls. Hann hafði unnið flestar skákirnar sínar til þessa en hefur þó líka tapað.
Þegar mbl.is bar að garði í Hörpu var Hrafn að tefla við stjórnmálaskörunginn Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem er að sjálfsögðu alvön pólitískri refskák.
Skákmarþonið sem haldið er af Skákfélaginu Hróknum, Fatímu-sjóðnum og UNICEF er liður í söfnun fyrir börn á flótta í Sýrlandi en fjögur ár eru liðin frá því að stríð braust út í landinu sem hefur leikið börn þar illa og meira en 7,5 milljón börn eru á flótta vegna ástandsins.
Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.490 krónur) og gefa þannig flóttabarni frá Sýrlandi pakka af skólagögnum. Áhersla söfnunarinnar verður á menntun sýrlenskra barna sem flúið hafa yfir til Jórdaníu en þar í landi eru fleiri en 220.000 flóttabörn á skólaaldri.