Heimaey sést sjaldan alhvít

Alhvít Heimaey.
Alhvít Heimaey. Ljósmynd/Tyrfingur Þorsteinsson

Alhvít Heimaey er fremur sjaldgæf sjón úr háloftunum, að sögn Tyrfings Þorsteinssonar, flugmanns hjá Icelandair. Hann átti leið yfir Vestmannaeyjar mánudaginn 2. mars síðastliðinn og tók meðfylgjandi mynd úr um 20.000 feta (rúmlega 6 km) hæð. Tyrfingur á konu úr Vestmannaeyjum og bjó þar í tvö ár.

„Ég hef aldrei áður séð Heimaey jafn hvíta og hún var þarna,“ sagði Tyrfingur. „Ég hef oft flogið þarna yfir. Það hefur gjarnan verið föl á henni og víða snjór, en aldrei svona. Það var nokkuð merkilegt að sjá hana svona hvíta. Þetta var einstakt tækifæri og gaman að smella mynd af henni.“

Trausti Jónsson, veðurfræðingur, sagði að alhvítt yrði í Vestmannaeyjum oft á hverju ári samkvæmt upplýsingum frá Stórhöfða. Hann sagði að annað mál væri að snjór fengi sjaldan að vera í friði í Vestmannaeyjum. Vindurinn feykti honum yfirleitt fljótlega á haf út og í skafla.

„Eyjan er sjálfsagt ekkert mjög oft alveg hvít, þannig að ekki hafi skafið af hæðum og tindum,“ sagði Trausti. Hann sagði að töluvert mikið geti snjóað í Vestmannaeyjum. Snjódýptartölur frá Stórhöfða séu hærri heldur en úr Reykjavík, svo dæmi séu tekin. Þá gerist það alltaf öðru hvoru að illfært verði í Vestmannaeyjum vegna fannfergis eins og nýleg dæmi sanna.

Stórhöfði er í 120 metra hæð yfir sjó og er neðst og lengst t.v. á myndinni. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert