Þeir sem hyggjast berja sólmyrkvann augum 20. mars næstkomandi ættu að leggja leið sína í Kringluna um helgina, þar sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness verður að selja sérstök sólmyrkvagleraugu.
Tilgangurinn er að safna fé fyrir gjöf félagsins til íslenskra grunnskólabarna; 50.000 sólmyrkvagleraugum, sem gera fólki kleift að horfa beint á myrkvann án þess að skaða sjónina.
Um er að ræða mesta sólmyrkva sem sjáanlegur hefur verið á Íslandi í rúm sextíu ár, en að morgni hins 20. mars mun tunglið myrkva allt að 99% af skífu sólar á Austurlandi og eitthvað aðeins minna í höfuðborginni.
Að sögn Sævars Helga Bragasonar, formanns Stjörnuskoðunarfélagsins, nemur heildarkostnaður við gjöfina og verkefnið um 4,5 milljónum. Það nýtur stuðnings Hótel Rangá sem greiðir um fjórðung kostnaðarins, en aðrir styrkir skiluðu sér ekki.
„Við höfum mikla trú á þessu verkefni og teljum að það sé mjög mikilvægt; í fyrsta lagi að efla áhuga á vísindum og líka að gera átak í náttúrufræðikennslu, sem veitir ekki af,“ segir Sævar.
Félagið verður við Kaffitár í Kringlunni á opnunartíma verslunarmiðstöðvarinnar í dag og á morgun, og mun selja sólmyrkvagleraugun á 500 krónur stykkið.
„Þetta er fjárfesting til framtíðar, því ef fólk geymir gleraugun þá getur það notað þau aftur 12. ágúst 2026. Þá verður almyrkvi í Reykjavík,“ segir Sævar og hlær. Félagið hyggst fá til sín góða gesti í Kringluna, m.a. Ævar vísindamann, sem er góðvinur félagsins.
Að öllu gamni slepptu, segir Sævar mikilvægt að fólk fari rétt að ef það hyggst fylgjast með myrvkanum.
„Það er mikilvægt að taka fram, bara af umhyggju fyrir augum fólks, að maður heyrir fólk mikið spyrja hvort það geti ekki bara notað þrívíddargleraugun sem það fær í bíó eða venjuleg sólgleraugu. Það er algjört nein nei. Þau deyfa birtu sólarinnar ekki nóg og hleypa líka í gegn hættulegum geislum,“ segir Sævar, og ítrekar að varnaðarorð hans séu ekki sölubrella.
„Alls ekki nota þrívíddargleraugu, það er eiginlega verra en ekkert,“ segir hann og ítrekar enn og aftur að hvorki sé óhætt að stara á sólina með þess konar gleraugum né sólgleraugum.