Átta fullorðnir og 37 börn voru í rútunni sem fór út af veginum við Hótel Glym í Hvalfirði um hádegisbil. Rútan valt á hliðina og fjórir, tveir fullorðnir og tvö börn, voru fluttir á sjúkrahús. Þetta segir Björn Ívar Karlsson, einn af kennurunum í rútunni, en börnin voru á leið í skákbúðir í Vatnaskógi.
Honum var ekki kunnugt um meiðsl þeirra sem voru fluttir á sjúkrahús en að sögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar slasaðist enginn alvarlega.
Sjá frétt: 30 börn í rútu sem valt
Rútan fór út af í brekkunni að hótelinu, en mikil hálka var í brekkunni. Rútan valt á hliðina. Hópurinn leitaði skjóls á hótelinu, þar sem hann fékk góðar móttökur og bíður eftir að rúta komi til að flytja hann til Reykjavíkur.
Gert var að minniháttar meiðslum, skrámum og skurðum, á vettvangi og einhverjir hafa fengið áfallahjálp.
„Þetta var mikið sjokk fyrir flesta en aðrir eru í góðu jafnvægi. Býsna vel sloppið miðað við aðstæður,“ segir Björn. Hann segir flest barnanna þó hafa verið afar skelkuð.
Hópurinn mun fá áfallahjálp hjá Rauða krossinum þegar þau koma til borgarinnar.
„Við erum öll stödd á Hótel Glym og erum að bíða eftir rútu sem á að flytja okkur aftur í höfuðborgina. Einhverjir foreldrar eru að koma að sækja sín börn en við stefnum á að fara með flestalla í rútu aftur í bæinn,“ segir Björn um stöðuna.