„Það sem við vitum er að þetta mál hafði gríðarleg áhrif á starfsfólk spítalans. Það hafði miklar áhyggjur og situr enn á þeim,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, um ákæru ríkissaksóknara á hendur spítalanum og hjúkrunarfræðingi á gjörgæsludeild fyrir manndráp af gáleysi.
Þetta sagði Ólafur á sameiginlegu málþingi Lýðheilsufélags læknanema og Orators sem fram fór í gær í Háskóla Íslands. Í salnum sátu meðal annars hjúkrunarfræðingar sem tóku undir með Ólafi og sögðu málið hafa haft mjög mikil áhrif á starfsfólk á gjörgæslunni. Eftir að það kom upp hafi fólk hikað við að taka aukavaktir sem vantaði á. Þá sé það mjög erfitt að vinna tvöfalt auk þess að vera með líf og heilsu fólks í höndunum.
Atvikið átti sér stað árið 2012 og leiddi til þess að sjúklingur lét lífið. Hjúkrunarfræðingnum láðist að tæma loft úr kraga barkaraufarrennu þegar hún tók karlmann úr öndunarvél og setti talventil á barkaraufarrennuna. Leiddi það til dauða mannsins.
„Hversu langt nær ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks?“ var yfirskrift málþingsins og var þar fjallað um hversu langt þessi ábyrgð nær, öryggismál og þróunin í þessum málum og áhrif hennar. Álitaefni um ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks hafa verið mikið í deiglunni, sérstaklega eftir höfðun sakamálsins á síðasta ári.
Auk Ólafs hélt Dögg Pálsdóttir lögfræðingur Læknafélags Íslands þar erindi. Þá var Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítalanum, fundarstjóri.
Ólafur fjallaði um öryggismenningu í heilbrigðiskerfum, stöðu þessara mála í samanburðarlöndum okkar, stöðuna á Landspítalanum, helstu vandamál og verkefni í tengslum við álitaefnið og mögulegar lausnir og framtíðarsýn.
Þá talaði hann um svokölluð atvik og hvernig þau eru meðhöndluð á spítalanum. Loks sagði hann frá því hvernig verið væri að breyta stefnunni í þessum málum, og þar væri hægfara en mjög ákveðin breyting ef litið væri á alvarleg atvik og mistök í heilbrigðiskerfinu.
Dögg fjallaði um lagalegu hliðina og setti umfjöllunarefnið í þann lagaramma sem til staðar er. Hún sagði ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna ná alla leið, og víða í lögum væru ákvæði um skyldur heilbrigðisstarfsmanna og viðbrögð ef gegn þeim er brotið. Þessi viðbrögð eru af tvennum toga; refsingar og refsikennd viðurög - eða skaðabætur.
„Menn verða að horfast í augu við það að hvert atvik hefur þær afleiðingar að einhver ber ábyrgð og sú afleiðing getur orðið refsiábyrgð,“ sagði Dögg. Hún benti á lög frá árinu 2012 um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna. Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra varða sektum eða fangelsi allt að 3 árum.
Dögg sagði það ekki einsdæmi að heilbrigðisstarfsmenn væru ákærðir þó það væri einsdæmi að þeir væru ákærðir fyrir manndráp af gáleysi. Benti hún á ákærur á hendur læknum vegna fóstureyðinga þar sem refsingin var sekt, og einnig ákæru á hönd læknis sem hafði gefið út æviminningar og talað óvarlega um samskipti sín við sjúkling og var honum einnig refsað með sekt.
Þriðjungur allra landsmanna leitar árlega til Landspítala. Um 100 þúsund manns leita til spítalans, og um 400-500 þúsund komur eru á ári hverju. Á hefðbundnum degi á spítalanum eru um 600 sjúklingar á legudeildum og 1.300 komur sjúklinga á dag- og göngudeildir. Þá eru um það bil 3.700 starfsmenn í vinnu daglega.
„Þær ógnir sem Landspítalinn glímir við eru mannaflavandi í ýmsum greinum, húsnæði og aðstaða, sem er orðin meiriháttar ógn við öryggi, og vaxandi kröfur almennings,“ sagði Ólafur.
Þá sagði hann gríðarlega mikilvægt að komast í nýtt húsnæði, en á hverju ári eru um 9.000 flutningar á milli húsnæðis í Fossvogi og á Hringbraut. Auk þess hefur aðeins 8% af húsnæði spítalans verið byggt á síðustu 25 árum, og aðeins 4% salerna uppfylla byggingareglugerðir.
Þá verður 31% fjölgun legudaga árið 2025 vegna öldrunar þjóðarinnar. Ólafur sagði meiriháttar vanda framundan, ekki síst hjá hjúkrunarfræðingum. „Þetta er ekki óleysanlegt en þetta eru ógnir.“
Ólafur benti þó einnig á árangur í starfseminni, þar á meðal lága dánartíðni vegna krabbameina, og árangur hvað varðar kransæðastíflur og heilablóðföll. „Ef við horfum á stóru myndina getum við sagt með ágætri vissu að Landspítalinn er góður spítali. En hann á að vera frábær spítali og við eigum að stefna hærra.“
Hann sagði öflugt gæða- og umbótastarf vera nausynlegt, og þar væru mörg verkefni í gangi. Eitt dæmi um það væri atvikaskráning og úrvinnsla. Þegar talað væri um óvænt atvik væri átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni samkvæmt lögum. Skráð atvik árið 2014 voru samtals 2.958, þar af voru 11 alvarleg og 8 óvænt andlát.
Óvænt andlát hafa verið sex til tíu síðustu þrjú ár á spítalanum. Alls eru þó um 700 andlát á ári hverju á spítalanum, og eru orsakir margþættar. Aldrei hefur verið grunur um ásetning og aldrei hefur verið sakfellt fyrir manndráp af gáleysi að sögn Ólafs.
Þá sagði hann skráningar á þessum atvikum gríðarlega mikilvægar til að stuðla að bættri starfsemi spítalans. „Það eru beinlínis almannahagsmunir að ná að fyrirbyggja þetta,“ sagði hann.
Ólafur sagði mikla áherslu lagða á úrvinnsluna, en þó væri stór hluti þessara atvika vægur. Flokkunin og úrvinnslan er gerð samkvæmt alþjóðlegum aðferðum og stöðlum. Notast er við alþjóðlega aðferðarfræði sem er rótargreining. Hann sagði skráninguna því aðeins flöggun, en flokkun og úrvinnsla væri kjarni vinnunnar.
Tæplega 40 manns úr mismunandi starfsstéttum hafa hlotið þjálfun, en haldin hafa verið tvö námskeið til að þjálfa starfsfólk í aðferðafræðinni. Þegar hefur 15 rótargreiningum verið lokið, en hver og ein tekur um tvo mánuði. „Þetta er gert til að stunda stöðugar umbætur og er aðferð til að leita uppi rót vandans. Það er enginn sem ætlar að mæta í vinnuna og gera slæma hluti.“
Niðurstöður greininganna eru yfirleitt þær að eitthvað hefur farið úrskeiðis í samskiptum, eftirliti, viðbrögðum við breyttu ástandi eða yfirfærslu ábyrgðar. „Úmislegt getur farið og hefur farið úrskeiðis,“ sagði Ólafur. Þá benti hann t.d. á það að slæmt væri fyrir öryggi sjúklinga að hafa bráðamóttöku á mörgum stöðum. Framkvæmdastjórnin fjallar um öll alvarleg atvik á sínum fundum vikulega.
Þá sagði Ólafur að í alþjóðlegum gæðafræðum væri farið að líkja spítölum frá öryggissjónarmiði við kjarnorkuver, flugmóðurskip og aðra slíka starfsemi. „Við erum almennt ekki komin þangað í huganum svo það þarf hugarfarsbreytingu.“
Þá sagði hann að ef hægt væri að sjá vandamál fyrr væri auðveldara að koma í veg fyrir þau. Það væri því mikilvægt að vera með stöðumat, núvitund og breytt viðhorf - en opin menning væri forsenda öryggis í heilbrigðisþjónustu.
„Heilbrigðisþjónustan þrífst ekki í þöggun og þvinguðu lagaumhvergi. Þvinganir, bönn og refsingar leiða til þöggunar, leynimakks og klíkustarfsemi sem ógnar öryggi sjúklinga stórlega.“
Þá sagði hann mannlega þáttinn vera algjöra þungamiðju. Rafmagnið gæti alltaf farið, en mannlegi þátturinn skipti mestu máli.
„Það er gríðarlega brýnt að við höldum áfram að bæta heilbrigðiskefið. Við erum á þessari vegferð og ætlum að halda áfram,“ sagði Ólafur að lokum.