Telur frumvarpið ekki vera til bóta

Óttar Proppé er aðalflutningsmaður frumvarpsins um að leggja niður mannanafnanefnd.
Óttar Proppé er aðalflutningsmaður frumvarpsins um að leggja niður mannanafnanefnd. mbl.is/Eggert

Mannanafnanefnd leggst eindregið gegn því að frumvarp Óttars Proppé þess efnis að nefndin verði lögð niður og öll ákvæði um hana felld brott verði samþykkt. Telur nefndin frumvarpið ekki vera til bóta.

Í umsögn nefndarinnar um frumvarpið segir hún jafnframt að varhugavert sé að fella á brott ákvæði um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn.

„Þá yrði til að mynda hægt að nefna dreng Þorgerði og stúlku Sigmund,“ segir í umsögninni.

Meginmarkmið frumvarpsins er að undirstrika þá meginreglu varðandi nöfn og nafngiftir að almennt skuli gert ráð fyrir því að nöfn séu leyfð, að foreldrum sé treyst til að velja börnum sínum nafn og að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé virt.

Mannanafnanefnd segist á síðustu árum hafa óskað eftir því í samskiptum við innanríkisráðuneyti að núverandi lög um mannanöfn yrðu endurskoðuð. Ýmis grundvallarhugtök í núverandi lögum, eins og málkerfi og hefð, séu ekki nægilega vel skilgreind í þeim. Mannanafnanefnd sé skylt að framfylgja lögunum eftir bestu vitund en vegna þessara annmarka kunni úrskurðir nefndarinnar stundum að þykja misvísandi.

„Enda þótt frumvarpið næði fram að ganga, allar kvaðir um nöfn felldar brott og mannanafnaskrá ekki lengur, til verður ekki hjá því komist að upp komi ágreiningsefni um nöfn og skráningu þeirra. Einhver aðili eða stofnun þarf að geta tekið á slíkum málum.

Þörf er á heildarendurskoðun laga um mannanöfn eins og áður var rakið. Það er mikil vinna og huga þarf að mörgum þáttum. Kalla þarf til sérfræðinga á sviði laga, málfræði og mannréttinda til að endurskoða lögin. Við teljum umrætt frumvarp ekki vera til bóta og leggjumst gegn því að það verði samþykkt,“ segir í umsögn mannanafnanefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert