60% morða má rekja til heimilisofbeldis

Frá árinu 2003 hafa verið framin ellefu morð á Íslandi sem rekja má til heimilisofbeldis en það er um 60% morða sem framin voru á þessu tímabili. Þessar upplýsingar byggja ekki á dómsmálum heldur þeim málum sem lögreglan telur vera morðmál og kæra er lögð fram vegna.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í bæklingnum Kynlegar tölur sem gefinn er út af mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar í tilefni af hinum alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem er í dag. Bæklingurinn hefur að geyma tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í borginni og á landinu.

Margt athyglisvert kemur fram í bæklingnum, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Sem dæmi megi nefna að engar marktækar upplýsingar eru til um ofbeldi gegn fötluðu fólki en erlendar rannsóknir sýna að fatlað fólk verður fyrir ofbeldi í mun meira mæli en ófatlað fólk. Fatlaðar konur eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en nokkur annar hópur samfélagsins.

Þá kemur einnig fram að hlutfall erlendra kvenna sem dvöldu í Kvennaathvarfinu sé mun hærra en fjöldi innflytjenda á landinu gefi tilefni til, eða 32%, á meðan þær eru 10% kvenna sem búa á Íslandi. „Það sama er uppi á teningnum með hlutfall innflytjenda í hópi þeirra sem beittu konurnar ofbeldi sem dvöldu í Kvennaathvarfinu, en þar eru erlendir karlmenn 22% á meðan þeir eru 9% íbúa landsins,“ segir í tilkynningunni.

Frétt Reykjavíkurborgar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert