Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tóku í dag fyrstu skóflustungu að nýbyggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Athöfnin fór fram í dag, á alþjóðadegi kvenna.
Byggingin mun rísa á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu, næst gömlu Loftskeytastöðinni. Framkvæmdir hefjast á næstunni og á húsið að verða tilbúið til notkunar í október 2016.
Í húsinu verður fjölbreytt starfsemi sem öll miðar að því að auka þekkingu á erlendum tungumálum og menningu og mikilvægi þeirra og miðla henni sem víðast. Þar verður til húsa Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar sem mun starfa undir merkjum UNESCO, Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hún er fyrsta tungumálamiðstöð sinnar tegundar í heiminum sem hlýtur slíkan sess. Í byggingunni verður einnig aðstaða til kennslu og rannsókna í þeim erlendu tungumálum sem kennd eru við Háskóla Íslands og þekkingarmiðstöð þar sem leikir og lærðir geta fræðst um erlend tungumál og menningu á lifandi og skapandi hátt.