Átakið Fjármálavit fór af stað í vikunni. Fjármálavit er fjármálafræðsla fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla um land allt. Páll Óskar Hjálmtýsson er verndari verkefnisins og segir hann mikilvægt að ungir krakkar fái leiðsögn enda sé enginn fæddur fjármálasnillingur.
Páll Óskar segir að sem unglingur hafi hann, eins og flestir aðrir unglingar, verið fjárhagslega háður foreldrum sínum.
„Ég byrjaði að vinna fyrir mér þegar ég var 16 ára. Úr því að ég bjó ennþá í foreldrahúsum fóru allir peningarnir í að kaupa sér nýjustu tískufötin, plöturnar og geisladiskana,“ segir hann og bætir við að sig hafi í raun ekki skort neitt.
„Ég er duglegur í grunninn og hef alltaf unnið mikið, sjaldan fallið verk úr hendi og kannast ekki við tilfinninguna að leiðast,“ segir Páll.
„Áður en ég veit af er ég kominn á fullt í poppbransanum. Allar plöturnar seldust vel, allt fór í gull og mig vantaði aldrei pening og allt er á uppleið, þangað til – bang!“
Árið 1999 kemur fyrsti skellurinn. „Þá gaf ég út plötu sem ég hélt að myndi verða ógeðslega góð ef ég myndi taka hana upp í dýrasta stúdíóinu í London. Síðan þegar platan selst ekki eyði ég enn meiri peningum í auglýsingar. Ég hreinlega dúndraði peningum í plötuna sem síðan seldist ekki neitt.“
Eftir þetta var hann með sex milljónir í mínus. „Á sama tíma tekur skattmann mig í rannsókn og fann einhver tíu gigg sem mér hafði láðst að telja fram.“Allt í einu skuldaði hann níu milljónir og segist hann vægast sagt hafa verið í djúpum skít.
Plötufyrirtækið sem Páll Óskar hafði rekið síðan 1995 var á sama tíma komið fyrir gerðardóm, sem þýðir að hver sem er hefði getað keypt upptökurnar af öllum hinum plötunum sem hann hafði gert á undan.
„Það var þarna sem ég fór á hnén og baðst vægðar og lofaði dómaranum og skattmann að ég myndi reyna að borga þetta upp eftir bestu getu og þeir gáfu mér séns.“
Hann lærði mikið af þessari reynslu.
„Í fyrsta lagi lærði ég að þú lærir ekkert að fara með peninga á meðan allt gengur sjúklega vel. Þú lærir ekkert fyrr en fyrsti skellurinn kemur. Ég hafði aldrei hlotið neina þjálfun, fengið kennslu eða leiðsögn í peningamálum eða fjármálum. Eins og ég sagði; ég þurfti eiginlega ekkert á því að halda þegar allt gekk fínt.“
Páll Óskar segir skellinn hafa reynst blessun í dulargervi vegna þess að hann varð til þess að hann „hysjaði upp um sig buxurnar“ og fór loksins að læra.
„Ég var að kaupa rándýra hluti, fyrir peninga sem ég átti ekki, til að ganga í augun á öðru fólki sem var alveg skítsama.
Þarna þurfti ég að segja stopp og setja hlutina í rétt samhengi. Hvað gerir maður þegar maður skuldar níu milljónir og hvað gerirðu þegar síminn hringir ekki einu sinni af því að þú ert orðinn „has-been“-poppstjarna? Þarna þurfti ég að skoða neysluna á mér alveg ofan í kjölinn, ég þurfti að skrifa niður allt sem ég eyddi peningunum í og velta fyrir mér hverri krónu.“ Hann flutti í kjölfarið aftur í foreldrahús og segist þakklátur föður sínum fyrir að sjá aumur á sér og skjóta yfir sig skjólshúsi.
Síminn hringdi ekki og segist Páll Óskar fljótlega hafa áttað sig á því að hann þyrfti að taka að sér verkefni sem hann taldi áður „fyrir neðan sína virðingu“ eins og að syngja í brúðkaupum og einkasamkvæmum. „En svo komst ég að því að ég er bara virkilega góður brúðkaupssöngvari og get fengið alla í einkasamkvæminu til að standa upp frá matnum og held dansgólfinu fullu alla nóttina. Þarna þurfti ég að sleppa tökunum á hrokanum í sjálfum mér. Ég komst að því reyndar að ég fílaði þessa vinnu í botn,“ segir Páll Óskar.
„Ég á alveg gríðarlega stórt plötusafn og þarna sá ég tækifæri í því að fara að vinna sem plötusnúður. Smám saman kemur í ljós að ég er bara mjög fínn plötusnúður, partíunum fjölgar og síminn fer að hringja. Ég man að skuldabyrðin á mínum herðum á þessum tíma var 300.000 kr. á mánuði og einhvern veginn varð ég að dekka þennan 300-kall. Enn þann dag í dag skil ég ekki hvernig mér tókst það en mér tókst það – alltaf.“ Tímabilið 2000-2005 einkenndist af mjög mörgum gluggaumslögum. Mjög oft frá Intrum og mjög oft frá skattmann. „Þetta var bara fjall sem ég þurfti að díla við.“
Smám saman tókst honum að klappa þetta fjall niður og á sama tíma stækkuðu „giggin“ svo úr verður nokkurs konar jafnvægi.
„Svo ranka ég við mér í júní árið 2006, ég sit fyrir framan tölvuna og er að fara inn á heimabankann. Ég skrolla niður skuldafjallið og er að leita að kaflanum „lán“ og á móti tekur blikkandi ljós: „engin lán fundust“.
Það tók Pál Óskar sex ár að borga upp skuldirnar. „Ég nýtti hverja einustu krónu sem kom inn í að borga fyrst upp reikningana og lærði að forgangsraða.“
Þrátt fyrir að hafa klárað að borga upp skuldirnar hélt síminn áfram að hringja. Honum tókst loks að leggja fyrir og safna peningum og gefa út eina dansplötu í viðbót. Páll Óskar lagði fyrir fyrir henni því í þetta sinn ætlaði hann ekki að taka lán. Allt fyrir ástina kom síðan út eftir að hann hafði safnað einni og hálfri milljón í startkostnað. Það sem hann hafði þó ekki reiknað með var að platan sló í gegn. „Hún seldist brjálæðislega vel og í rauninni fór allt í gang aftur; það fór ákveðið hjól að snúast, sem hefur ekkert hætt að snúast síðan. Aftur á móti man ég eftir hverju einasta gluggaumslagi enn þann dag í dag. Ég býð ekki sjálfum mér upp á það í dag að eyða um efni fram; ef mig langar í eitthvað þá safna ég fyrir því.“
Páll Óskar segist þakka guði fyrir að á unglingsárum sínum hafi ekki verið til svokölluð smálán sem redda peningum nánast samstundis.
„Ég er bara þannig gerður að ég hefði steypt mér í skuldafen. Guði sé lof að það var mamma sem hélt á buddunni. Ég segi bara guði sé lof að það skuli vera svona átak í gangi núna fyrir krakka. Þú þarft að læra að umgangast peninga einn góðan veðurdag, hvort sem það gerist þegar þú ert fimmtán ára eða eins og það sem kom fyrir mig þegar ég var 30 ára, ég lærði það ekki fyrr.“
Páll Óskar segir það afar miklivægt að krakkar séu ungir þegar þeir fara að huga að fjármálum.
„Það var nógu mikið strit að vera unglingur á breiktímabilinu þar sem þú þurftir að vera í réttum Millet-úlpum og réttum kínaskóm með réttu „sítt að aftan“-hárgreiðsluna, þetta kostaði allt peninga. Ég held að unglingar séu enn markaðssettari í dag og þurfi að hafa mjög mikið fyrir því að kaupa hárréttu fötin, vera með hárrétta lúkkið, hárrétta gemsann og hárréttu spjaldtölvuna og allt þarf að smella ef þú átt að eiga séns. Séns, sem markaðsöfl eru á fullu að sannfæra þig um að fáist með rétta draslinu. Sumir krakkar ranka svo við sér og fatta að þetta er helber lygi. Þau fatta að „séns“ þeirra og sjálfsvirðing fæst ekki með Millet-úlpu.“
Hann ítrekar mikilvægi þess að unglingar fái fjármálafræðslu snemma.
„Það er enginn fæddur fjármálasnillingur, ekki frekar en fólk er fætt píanósnillingar. Við þurfum öll leiðsögn.“