Vesturlandabúum hættara við að brjóta sig niður

Frá trúarathöfn búddista í Sir Lanka í síðata mánuði. Búddismi …
Frá trúarathöfn búddista í Sir Lanka í síðata mánuði. Búddismi og núvitund eru náskyld fyrirbæri. AFP

 „Núvitund er hugarástand sem er öllum manneskjum eiginlegt og núvitundariðkun er leið til þess að þjálfa sig í því að upplifa slíkt ástand sem oftast. Núvitund er í raun hrein upplifun af veruleikanum rétt áður en hugurinn fer að skilgreina og flokka fyrirbærin sem hann skynjar,“ segir Ingibjörg Kristín Eiríksdóttir, en hún útskrifaðist úr meistaranámi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands í síðasta mánuði. Í lokaverkefni Ingibjargar rannsakaði hún upplifun fólks af því að iðka núvitund.

„Núvitund er sammannlegt fyrirbæri sem allar manneskjur upplifa en þó í mismiklum mæli. Börn eru almennt meira hér og nú en fullorðnir, því núvitund er forskilvitleg upplifun af veruleikanum, það er að upplifa heiminn beint en ekki í gegnum hugsanir og hugtök. Í þessu samhengi hefur verið talað um hug byrjandans eða „beginner‘s mind“,“ segir Ingibjörg og bætir við að rannsóknir bendi til þess að þeim mun meira sem einstaklingur er hér og nú þeim mun betri sé geðheilsa hans. „Einstaklingar geta þjálfað sig í því að vera meira hér og nú með því að iðka núvitund og þar með bætt lífsgæði sín og geðheilsu,“ segir Ingibjörg.

Órólegur hugi veldur manninum þjáningu

Þegar núvitund fór að þekkjast í hinum vestræna heimi var hún fyrst og fremst tengd við búddisma, en þaðan er heimspeki núvitundar upprunnin. „Í búddismanum er fjallað mjög ítarlega um eðli hins órólega huga og þá þjáningu sem hann veldur manninum. Samkvæmt búddískri heimspeki er huganum skipt í tvennt, annars vegar í hinn friðlausa huga, einnig nefndur egó, og hins vegar hinn friðsæla huga. Hinn friðsæli hugur einkennist af vitund án hugsunar og er talinn vera kjarni alls sem er. Hjá flestum er hugurinn órólegur, uppfullur af hugsunum en samkvæmt kenningum búddískrar heimspeki má ná auknum tengslum við hinn friðsæla huga með ástundun núvitundar og þar með auknum tengslum við augnablikið hér og nú,“ segir Ingibjörg.

„Endanleg lausn frá þjáningunni næst þegar einstaklingurinn hefur tamið hinn friðlausa huga og dvelur alfarið í þeim friðsæla. Slíkur einstaklingur telst uppljómaður samkvæmt búddískum kenningum.“

Með fulla athygli á augnablikinu

Að sögn Ingibjargar hefur núvitundariðkun verið skilgreind sem það að vera með fulla athygli á augnablikinu og að temja sér að dæma ekki það sem upplifað er. Hægt er að iðka núvitund með formlegum hætti, þ.e. núvitundarhugleiðslu, en einnig með óformlegum hætti í hinu daglega lífi. „Til eru ýmsar aðferðir til að stunda núvitundarhugleiðslu en í grófum dráttum má flokka aðferðirnar í tvo flokka þ.e. einbeitingarhugleiðslu, þar sem iðkandinn einbeitir sér t.d. að andardrættinum, og hugleiðslu þar sem iðkandinn dvelur einfaldlega í sjálfum sér og fylgist með skynjunum sínum, s.s. eins og hugsunum og tilfinningum, koma og fara eins og hlutlaus áhorfandi. Í báðum tilvikum er hefð fyrir því að iðkandinn sitji kyrr með bakið beint,“ segir Ingibjörg.

Núvitundariðkun í daglega lífinu felst í því að temja sér að vera hér og nú og taka eftir því sem er á hverju augnabliki og að temja sér hlutleysi gagnvart því sem upplifað er, þ.e. að fella ekki dóma yfir mönnum og málefnum, heldur temja sér hlutleysi. „Í þessu samhengi ber að hafa í huga að það ber jafnt að forðast „jákvæða“ dóma sem „neikvæða“. Ef einstaklingi finnst eitthvað viðeigandi þá felst jafnan í því að honum finnst eitthvað annað óviðeigandi. Hver dómur á sér þannig tvær hliðar hið minnsta, svarið er hlutleysi,“ segir Ingibjörg.

Núvitundarmeðferðir nýtast í heilbrigðiskerfinu

Að sögn Ingibjargar hefur núvitundariðkun reynst vel við þunglyndi, kvíða, streitu, fíknivanda og langvinnum verkjum svo eitthvað sé nefnt. 

„Það liggur því beint við að heilbrigðisstéttir, þar með taldir hjúkrunarfræðingar, nýti núvitundarmeðferð fyrir sína skjólstæðinga. Heildræn sýn og nálgun við meðferð sjúklinga hefur ætíð verið kjarninn í hjúkrunarfræðinni og fellur núvitundariðkun vel að þeirri hugmyndafræði. Núvitundariðkun getur einnig haft margvíslegt notagildi fyrir hjúkrunarfræðingana sjálfa og gert þá hæfari til að sinna störfum sínum þ.e. að vera meira hér og nú með sjúklingum sínum,“ segir Ingibjörg en búddísk heimspeki, hugleiðsla og andleg fræði ýmiss konar hafa verið áhugamál hennar um árabil og var það m.a. ástæða þess að hún ákvað að rannsaka núvitund.

„Mér hefur verið hugleikið hvernig nýta megi þá sannleikskjarna sem í þessum fræðum felast í heilbrigðisþjónustunni og þá einkum í geðheilbrigðisþjónustunni sem er mitt sérsvið. Ég hef starfað á geðsviði Landspítalans frá 2008 og það fyrsta sem maður tekur eftir er hin mikla þjáning sem hugurinn veldur þeim sem þjást af geðrænum veikindum,“ segir Ingibjörg en hún hefur sjálf iðkað hugleiðslu í um tuttugu ár og kynnst jákvæðum áhrifum hennar.

„En til þess að skilja betur hvernig hægt er að nota núvitundariðkun sem heilbrigðismeðferð til að bæta lífsgæði og lina þjáningar er mikilvægt að dýpka skilning á fyrirbærinu sem slíku. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið á núvitundariðkun eru megindlegar og enn sem komið er hafa fáar eigindlegar rannsóknir á upplifun einstaklinga af því að iðka núvitund verið gerðar. Þó hafa þeir sem til þekkja bent á að þörf sé á slíkum rannsóknum enda geti slík fyrirbærafræðileg nálgun verið til þess fallin að dýpka þekkingu á fyrirbærinu núvitund. Sú þörf og einlægur áhugi varð mér hvati til að taka þetta efni til rannsóknar.“

Miðar að því að dýpka skilning á mannlegri reynslu

Rannsókn Ingibjargar fór þannig fram að tekin voru viðtöl við sex einstaklinga sem allir hafa áralanga reynslu af því að iðka núvitund. Þátttakendur voru spurðir út í upplifun sína af núvitundariðkun og með hvaða hætti hún hefði haft áhrif á líf þeirra. Rannsóknarspurningin var: Hver er upplifun þín af því að iðka núvitund? Að sögn Ingibjargar var notuð túlkandi fyrirbærafræðileg rannsóknaraðferð til þess að svara spurningunni sem miðar að því að dýpka skilning á mannlegri reynslu.

„Hugmyndafræði rannsóknaraðferðarinnar er að hver einstaklingur skynji heiminn með sínum hætti og að sú skynjun mótist af fyrri reynslu hans og túlkun á þeirri reynslu. Unnið var úr texta viðtalanna með þemagreiningu þar sem leitast var við að draga fram kjarnann í upplifun þátttakendanna af iðkuninni,“ segir Ingibjörg.

„Megin niðurstaðan var sú að núvitundariðkun hefði margvísleg jákvæð áhrif á líf iðkenda. Núvitundariðkunin kom af stað umbreytingarferli hjá þeim. Þeir upplifðu vitundarvakningu þegar þeir fóru að sjá eðli hins sjálfvirka huga og hvernig hann stýrði lífi þeirra. Það að geta horft á hugsanir og tilfinningar úr fjarlægð virtist gera það að verkum að þeir fóru að sjá margt í skýrara ljósi. Það gerði það einnig að verkum að þeir þurftu ekki alltaf að bregðast við hverri hugsun og tilfinningu út frá sjálfvirkni,“ segir Ingibjörg.

Nauðsynlegt að sýna sjálfum sér góðvild

Hún bætir við að til þess að viðhalda umbreytingarferlinu var talið nauðsynlegt að sýna sjálfum sér góðvild. „Núvitundariðkunin gerði það að verkum að þeir fóru að sjá ýmislegt óþægilegt í eigin lífi sem þeir höfðu ekki verið meðvitaðir um áður og þá var mikilvægt að sýna sér góðvild og ekki dæma sjálfan sig hart. Umbreytingin fólst í því að þátttakendur áttu auðveldara með að leyfa öllu að vera eins og það er, þeir höfðu meiri sjálfsstjórn, þeir voru meira hér og nú og tengsl þeirra við sjálfa sig og aðra jukust og urðu betri. Af niðurstöðum rannsóknarinnar má álykta að núvitundariðkun geti verið gagnleg til þess að rækta með sér þessa eiginleika,“ segir Ingibjörg.

Niðurstöður rannsóknarinnar bætast í hóp fjölmargra rannsóknarniðurstaðna sem sýnt hafa fram á gagnsemi núvitundariðkunar að sögn Ingibjargar. „Sú niðurstaða sem kom helst á óvart var hversu mikilvægt þátttakendur töldu það vera að sýna sér sjálfum sér góðvild í iðkuninni. Það er velþekkt innan núvitundarfræðanna að það að temja sér hlutleysi og að dæma ekki sjálfan sig, frekar en aðra, sé stór hluti af núvitundariðkun. Góðvildin sem þátttakendur þessarar rannsóknar lýstu var þó alls ekki hlutlaus heldur mátti skynja meiri kærleika þar heldur en felst í hlutleysinu. Þetta styður það sem fleiri hafa bent á að góðvild gagnvart sjálfum sér sé mikilvæg og þá sérstaklega fyrir fólk í vestrænum menningarheimum,“ segir Ingibjörg og bætir við að þetta sýni einnig að það sé eitthvað í vestrænni menningu sem gerir það að verkum að Vesturlandabúum sé hættara við að brjóta sig niður þegar þeir sjá óþægilega hluti í eigin fari. Að mati Ingibjargar virðist sú tilhneiging ekki eins ríkjandi í austrænni menningu.

Hún segir að niðurstöðurnar gefi tilefni til að spyrja hvort aðlaga þurfi núvitundarfræðin og núvitundarkennslu og -meðferð betur að Vesturlandabúum með því að leggja áherslu á góðvildina samhliða öðrum þáttum. „Þá var athyglisvert hversu byltingarkennd sú hugarfarsbreyting getur verið í lífi iðkandans að reyna ekki stöðugt að breyta hugsunum heldur leyfa þeim einfaldlega að vera eins og þær eru um leið og iðkandinn fylgist með þeim líkt og áhorfandi. Það að leyfa hugsunum eða hlutunum að vera eins og þeir eru virðist draga úr áreynslu í lífi iðkandans og jafnframt úr tíðni óþægilegra hugsana,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg starfar sem hjúkrunarfræðingur á Hvítabandinu sem er hluti af geðsviði Landspítalans. Hún er þó nýkomin í fæðingarorlof. „Markmiðið er að sjálfsögðu að vera sem mest hér og nú fyrir barnið,“ segir Ingibjörg og brosir. „Auk þess eru börnin jú með hug byrjandans (beginner‘s mind) og geta kennt okkur svo margt um núvitund,“ bætir hún við.  Hún segir að á Hvítabandinu hafi núvitundariðkun verið beitt samhliða öðrum aðferðum, eins og hugrænni atferlismeðferð, um nokkurt skeið sem meðferð fyrir einstaklinga með tilfinningavanda og hefur þótt reynast vel. „Ég hlakka til að takast áfram á við krefjandi störf á þeim vettvangi og tel að rannsóknin og niðurstöður hennar muni verða mér gott veganesti í þeim efnum. Þá er alls ekki útilokað að ég muni ráðast í frekari rannsóknir á núvitund og tengdum viðfangsefnum í framtíðinni. Þótt heimspeki núvitundar sé árþúsunda gömul eru vísindin enn skammt á veg komin á þessu sviði og af mörgu að taka.“

Frá trúarhátíð búddista í Sri Lanka í síðasta mánuði. Núvitund …
Frá trúarhátíð búddista í Sri Lanka í síðasta mánuði. Núvitund og búddismi eru náskyld fyrirbæri. AFP
Ingibjörg Kristín Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur.
Ingibjörg Kristín Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert