Áratuga skógrækt í hættu

Uppbygging í trjárækt á Íslandi er sögð vera í hættu …
Uppbygging í trjárækt á Íslandi er sögð vera í hættu á að fara forgörðum vegna mikil samdráttar í gróðursetningu undanfarin ár. Ljósmynd/Skógrækt ríkisins

Stjórn Skógræktarfélags Íslands lýsir yfir áhyggjum af stórfelldum samdrætti í nýgræðslu skóga en leita þarf aftur til ársins 1989 til þess að finna lægri tölur um heildargróðursetningu skóga á landinu. Verði ekkert að gert sé ljóst að áratuga uppbyggingarstarf muni fara forgörðum.  

Árið 2014 voru gróðursettar um 2,9 milljónir trjáplantna á Íslandi, að því er kemur fram í tilkynningu stjórnar félagsins. Það er mikill samdráttur sé litið til síðustu sex ára. Afturhvarf um aldarfjórðung er sögð alvarleg staða þegar horft sé til uppbyggingar á innviðum skógræktar á undanförnum árum. Ef þróuninni verði ekki snúið við hið fyrsta blasi við að það mikla uppbyggingarstarf sem hafi átt sér stað frá því um 1990 verði fyrir miklu tjóni á sama tíma og tækifæri til skógræktar hafi aldrei verið meiri. Mesta tjónið liggi þó í töpuðum mannauði og engri endurnýjun eða nýsköpun og svo tapaðri auðlind og vistþjónustu skóga sem ekki verða til.

Ljóst sé að það muni taka nokkur ár að ná sambærilegum afköstum og árið 2007 en þá náði gróðursetning hámarki þegar gróðursettar voru hér á landi rúmlega 6,1 milljónir trjáplantna.

„Tækifæri hér á landi til fjölþættrar atvinnuuppbyggingar í skógrækt og landgræðslu eru mikil og sömuleiðis tækifærin til þess að draga úr uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti með þeirri hagkvæmu og skilvirku leið að binda kolefni, með aukinni skógrækt,“ segir í tilkynningunni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert