Ragnheiður Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, segir tækifæri liggja í því að semja um fækkun vinnustunda í vinnuviku. Hún segir ábyrgðina liggja á herðum stéttarfélaga en að tækifæri liggi einnig hjá fyrirtækjum varðandi fjölskyldustefnur. Hún vann ritgerð sem lokaverkefni til meistaraprófs í Stjórnun og eflingu mannauðs frá Háskólanum í Reykjavík sem fjallar um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu.
Hún segir þjóðfélagslegan ávinning hljótast af því að starfsfólk upplifi gott jafnvægi milli fjölskyldulífs og atvinnu. Felst ávinningurinn í sameiginlegum hag einstaklinga og fyrirtækja. Bendir hún m.a. á skýrslu McKinsey & co. um íslenskan efnahag þar sem kemur fram að framleiðni vinnuafls á Íslandi sé 20% lægri en hjá helstu nágrannalöndum en í skýrslunni kemur fram að þó Íslendingar vinni mikið þá skili það sér ekki í efnahagslegum ávinningi. Hún segir þannig Íslendinga vinna lengur en með minni afköstum en nágrannalöndin, báðir foreldrar eru útivinnandi og fjöldi barna er meiri hérlendis sem og fjöldi einstæðra foreldra.
Ragnheiður segir að í rannsókninni hafi komið fram að karlar sér þau úrræði sem vinnustaður þeirra bjóði upp á í tengslum við fjölskyldustefnu eigi þeir minni möguleika á stöðuhækkun og eins skapi það óvild meðal samstarfsmanna. Hún brýndi fyrir mikilvægi þess að fyrirtæki hefðu fjölskyldustefnu sem væri vel auglýst til starfsmanna því það skilaði sér á marga vegu en um 25% svarenda sögðust ekki þekkja fjölskyldustefnu vinnustaðar síns.
Þetta kom fram í erindi hennar á fundinum „Er tími til að njóta lífsins?“ sem Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa stóðu fyrir á Grand Hótel Reykjavík fyrr í dag.
Á fundinum tók Ásdís Arnalds, doktorsnemi í félagsráðgjöf við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, einnig til máls. Hún bendir á að feðrum sem taki fæðingarorlof hafi fækkað jafnt og þétt frá 2008. Eins taka þeir karlar sem taka orlof færri daga í orlof en áður, færri karlar taka langt samfellt orlof og fleiri mæður lengja sitt orlof. Hún segir upphaflegt markmið með lögum um fæðingarorlof, frá árinu 2000, um tengsl barna við báða foreldra því vera í verulegri hættu. Bendir hún m.a. á að tekjuháum feðrum sem taki orlof hafi fækkað eftir að þak var sett á mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris.
Síðasta erindi fundarins var frá Þóru Kristínu Þórsdóttur, doktorsnema í félagsfræði. Hún sagði Ísland standa framarlega hvað jafnrétti varðar en ekki þegar það komi að samspili heimilis og vinnu. Segir hún tæplega 45% karla og rúmlega 35% kvenna eiga erfitt með að sinna fjölskyldu vegna tíma sem varið er í vinnu. „Foreldrar á íslandi í fullu starfi eru undir meira álagi heldur en á hinum Norðurlöndum. Bæði hvað varðar hvernig tímanum er varið og vegna árekstra á milli heimilis og vinnu. Í máli Þóru kom jafnfram fram að vinnuálag sé meira hjá körlum en konum á barnlausum heimilum en það snúist við þegar börn eru á heimilum. „Það þýðir að kynbundin verkaskipting setur meira álag á konur,“ segir Þóra. Hún segir að það þurfi að stytta vinnuvikuna og hækka laun hérlendis, aðspurð hvers vegna vinnuálag sé meira á Íslandi en í nágrannalöndum. Það sé þó fjöldi barna og langur vinnutími sem er meginorsök álagsins hérlendis, líkt og fram kom í máli Ragnheiðar.