„Ég skal bera ábyrgð á þessu öllu“

Árni Sigfússon.
Árni Sigfússon. SteinarH
Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ og núverandi oddviti sjálfstæðismanna í minnihluta bæjarstjórnar, segist bera ábyrgð á þeirri stöðu sem komin er upp í fjármálum bæjarfélagsins. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Í tilkynningu sem barst frá Reykjanesbæ í dag var það ítrekað að fjárhagsstaða bæjarfélagsins sé alvarleg. Eiga yfirvöld nú í viðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu skulda. 
Eins og fram hefur komið var Reykjanesbær skuldugasta bæjarfélagið í árs­lok 2013 miðað við skuld­ir sem hlut­fall af tekj­um. Skuld­ir þess hafa fjór­fald­ast frá ár­inu 2002 til 2013. Sam­tals vantaði Reykja­nes­bæ öll þessi ár rúma þrjá millj­arða á verðlagi hvers árs til að geta staðið und­ir dag­leg­um út­gjöld­um sveit­ar­fé­lags­ins að fullu og hvað þá að eiga fyr­ir af­borg­un­um lána og ný­fram­kvæmd­um úr rekstri.

Skuld­ir Reykja­nes­bæj­ar voru 248% sem hlut­fall af tekj­um í lok árs 2013 en sam­kvæmt lög­um um sveita­fé­lög mega þau ekki skulda meira en sem nem­ur 150% af reglu­leg­um tekj­um þeirra. Reykja­nes­bær þarf að leiðrétta skulda­stöðuna fyr­ir árs­lok 2021.

„Það er alveg nauðsynlegt að ná samningum, það hefði verið æskilegt að ná samningum um áramót, en það hefur dregist, en það er mjög mikilvægt,“ segir Árni í kvöldfréttum RÚV. Segir hann jafnframt að það gæti komið til greiðslufalls. Bætir hann við að þetta sé þó ekki í fyrsta skipti sem bæjarfélagið sendir tilkynningu til Kauphallarinnar þar sem fram kemur að náist ekki samkomulag um niðurfellingu skulda sveitarfélagsins komi til greiðslufalls hjá bæjarfélaginu.

„Þetta eru aðilar í gegnum Glitni, þetta eru skuldbindingar sem tengjast okkar fasteignafélagi sem þarf þá að endursemja um og átti að vera búið að gera um áramót eins og ég segi. Það voru mjög hagstæðir samningar til áramóta en svo eru þeir að breytast og það er gríðarlega mikilvægt að ná þessu niður,“ segir Árni.

„Ég held að ég beri ábyrgð á því að við erum búin að byggja gott og öflugt samfélag,“ segir Árni aðspurður hvort hann beri ekki nokkra ábyrgð á stöðunni, sem fyrrverandi bæjarstjóri. „Við erum búin að vera að byggja hér atvinnulífið, við erum búin að vera að standa okkur vel í menntun og ég skal bera ábyrgð á því. Jafnframt hefur ekki gengið að ná upp ýmsum verkefnum, sérstaklega í atvinnumálum. Það er mikill kostnaður og það er það sem við erum að glíma við. Svo ég skal alveg bera ábyrgð á þessu öllu.“

Fyrri frétt mbl.is:

Mögulegt greiðslufall hjá Reykjanesbæ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert