„Þetta er búinn að vera ömurlegur vetur. Líklega versti vetur í áraraðir,“ segir Már Þorvarðarson, hjá rekstrardeild innanlandsflutninga hjá Flytjanda. Hann segir tíðafar hafa verið mjög slæmt síðan 27. nóvember á síðasta ári. „Við höfum aldrei áður sent jafn oft út yfirlýsingar vegna ófærðar og tafa og í vetur,“ segir Már.
Hann segir kostnað hafa aukist mikið hjá Flytjanda vegna veðursins, m.a. vegna aukinnar næturvinnu bílstjóra og annað sem sé búið „að kosta óheyrilega peninga því mannskapurinn hefur bara setið og beðið þar til veðrið gengur niður. Þá er meira og minna verið að vinna þetta í næturvinnu, miklu meira en normið er. Síðast en ekki síst bitnar þetta á okkar viðskiptavinum þar sem afhendingu á vörum hefur oft seinkað,“ segir Már en flestir viðskiptavinir fyrirtækisins sýna því skilning. „Þetta er engin óskastaða fyrir þennan rekstur sem við erum í.“
Már segir að ýmislegt sé gert til að reyna að „keyra í kringum veðrið“. M.a. hafa bílar fyrirtækisins verið sendir fyrr af stað, nánast þegar þeir eru orðnir fullir. „Þegar spáin er okkur erfið reynum við að flýta öllu eins og hægt er,“ segir Már.
Hann segir bílstjóra fyrirtækisins vera orðna langþreytta á ástandinu. „Þetta tekur á og er mikil vinna á bílstjórunum þegar það er nánast í hverri einustu ferð sem þeir þurfa að vera með keðjurnar í lúkunum og hvassviðri ofan á það allt saman,“ segir Már og bætir við að þetta tíðarfar sé ofboðslega mikið aukaálag á sálina.
Aðspurður hvort greina megi aukningu í fjölda óhappa vegna veðurs segir Már svo vera en að þeir séu búnir að vera afskaplega heppnir. „Við erum búnir að vera örlítið utan vegar, eins og sagt er, en engar veltur og engin stórtjón á tækjum. Þar sem skyggni hefur verið slæmt höfum við misst nokkra bíla útaf,“ segir Már en að þetta hafi þó gengið stórslysalaust fyrir sig.
„Það er því að þakka að við erum með góðan mannskap, allt saman hörkukallar. Þeir lesa veðrið vel og gera þetta af skynsemi,“ segir hann. Upp undir 40 bílar eru á ferðinni á hverjum degi á vegum Flytjanda, á leið til og frá Reykjavíkur. „Tafirnar verða þegar menn eru að bíða af sér þessi veður,“ segir Már og segir hann seinkunina aldrei vera mikið lengri en nokkra klukkutíma.
Hann segir að unnið sé eftir veðurgátlista í slæmu veðri og eru viðvörunarstigin fjögur þar sem viðvörunarstig fjögur þýðir algjört bann við akstri. „Það eru ákveðnir staðir á landinu sem eru verri en aðrir. Eftir að við tókum þetta upp má segja að við séum búnir að vera rosalega heppnir,“ segir Már.
Már segir að þegar veður sé slæmt sé látlaust verið að athuga með veður. „Við sendum á alla okkar viðskiptavini tölvupóst þar sem við útskýrum hvað við erum að gera,“ segir Már. Hann segir mun meiri keðjunotkun hjá fyrirtækinu í vetur en undanfarin ár og því fylgi mikill aukakostnaður, til viðbótar auknum launakostnaði.
„Keðjur eru ekki ódýrar í dag. Eitt par af tvöföldum keðjum eins og við erum að nota undir þessa bíla kostar um 170 þúsund krónur og ef bílstjóri er óheppinn getur hann eyðilagt eitt svoleiðis par á einni ferð,“ segir Már en aukinn kostnaður hefur ekki skilað sér út í verðlag fyrirtækisins að hans sögn.