Vel fór um fólk í fjöldahjálparmiðstöðvum Rauða krossins í Reykjaskóla í Hrútafirði og Laugarbakka í Miðfirði í nótt. Alls gistu tæplega 300 manns á þessum stöðum í nótt.
Rúmlega 200 fengu inni í Reykjaskóla í nótt og á milli 50 og 60 gistu í félagsheimilinu á Laugarbakka, sagði Elísa Sverrisdóttir, gjaldkeri Hvammstangadeildar Rauða krossins, þegar mbl.is heyrði í henni í morgun. Hún sagði að allir hefðu verið rólegir yfir þessu og nú væri fólk að fá sér morgunmat en björgunarsveitarfólk er að koma til að aðstoða ferðafólk við að komast í bifreiðir sínar að nýju. Unnið er að því að opna leiðina yfir Holtavörðuheiði á ný.
Rauði krossinn útvegaði öllum sem þess þurftu húsaskjól í nótt og fengu allir dýnur og teppi í fjöldahjálparstöðvunum.