Níðist á þeim sem minna mega sín

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Golli

Sala á áfengi í matvöruverslunum er fyrirkomulag sem níðist á þeim sem minna mega sín gagnvart áfengi og væri komið á til þess að auka leti manna sem enn standa í þeirri trú að þeir ráði við það. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um áfengisfrumvarpið í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir Kári að markmiðið með frumvarpinu virðist vera að minnka það ómak sem þeir verða fyrir sem vilja kaupa áfengi. Það yki hins vegar til muna vanda þeirra sem vilja ekki kaupa áfengi en reynist það erfitt.

„Áfengi er nefnilega ávanabindandi fíkniefni sem ég er viss um að flytjendur frumvarpsins vita þótt þeir láti nú eins og þeir geri það ekki. Ein setning í greinargerð með frumvarpinu byrjar svona: „þó hægt sé að misnota áfengi“. Af þessu mætti ráða að það reynist mönnum erfitt að misnota áfengi þótt það sé mögulegt; misnotkun á áfengi sé eins og að stökkva 2 metra og 30 sentimetra í hástökki, einungis á færi útvaldra,“ skrifar Kári.

Staðreyndin sé hins vegar sú að 15% landsmanna leiti sér hjálpar einhvern tíma á ævinni vegna misnotkunar áfengis að því marki að hún uppfyllir þröngar skilgreiningar á alkóhólisma. Það séu því 48.000 núlifandi Íslendingar sem verið væri að egna fyrir með áfengi í matvöruverslunum. 

„Sala á áfengi í matvöruverslunum er fyrirkomulag sem níðist á þeim sem minna mega sín gagnvart áfengi og væri komið á til þess að auka leti manna sem enn standa í þeirri trú að þeir ráði við það og til þess að þjóna þeirri útfærslu á hugmyndafræði frjálshyggjunnar að best sé að leyfa öllum allt án tillits. Þetta rímar á engan hátt við það hvernig við reynum að öðru leyti að fara með þá sem minna mega sín í íslensku samfélagi,“ skrifar Kári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert