Tveir hnífjafnir með fullt hús stiga

Sigurður Jens, Dagur Tómas, Hjalti Þór, Stefanía Katrín og Kristín …
Sigurður Jens, Dagur Tómas, Hjalti Þór, Stefanía Katrín og Kristín Björg, öll nemendur úr Menntaskólanum í Reykjavík, voru í átta efstu sætunum. Á myndina vantar þá Atla Fannar Franklín og Jóhann Ólaf Sveinbjarnarson úr Menntaskólanum á Akureyri, auk Garðars Andra Sigurðssonar úr MR.

Tveir nemendur úr Menntaskólanum í Reykjavík voru hnífjafnir að stigum í efstu sætum í Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema. Það voru þeir  Garðar Andri Sigurðsson og Sigurður Jens Albertsson og náðu þeir báðir 60 stigum af 60. Í þriðja sæti með 50 stig var Dagur Tómas Ásgeirsson, MR, og í 4. sæti með 49 stig var Hjalti Þór Ísleifsson. Alls kepptu 32 nemendur til úrslita í keppninni.

Nemendur í sautján efstu sætunum munu taka þátt í Norrænu stærðfræðikeppninni fyrir Íslands hönd hinn 24. mars næstkomandi. Sigurður Jens á afmæli aðeins of snemma til að geta tekið þátt í ólympíukeppninni en þeim Garðari Andra, Degi Tómasi og Hjalta Þór hefur þegar verið boðið að taka sæti í sex manna liði Íslands fyrir ólympíukeppni í stærðfræði í Chiang Mai í Taílandi í sumar. Hvaða þrír nemendur til viðbótar bætast í sex manna lið Íslands mun ráðast að lokinni norrænu keppninni.

Úrslit voru tilkynnt í verðlaunahófi í Háskólanum í Reykjavík í gær. Þar tók dr. Sigurður Freyr Hafstein, prófessor við HR, á móti keppendum og bauð þau velkomin. Daníel Guðbjartsson yfirmaður tölfræðideildar Íslenskrar erfðagreiningar hélt stutt erindi um starf sitt sem stærðfræðingur og umsjónarmenn keppninnar fóru yfir stærðfræðikeppnisárið og það sem er framundan og viðurkenningar voru afhentar, en þrír efstu keppendur hlutu auk þess peningaverðlaun.

Keppnin er undirbúin í sjálfboðaliðastarfi nefndar á vegum Stærðfræðafélags Íslands og Félags raungreinakennara en í ár stóðu Landsnet, Landsvirkjun og Actavis undir prentkostnaði og þess háttar auk þess sem Háskólinn í Reykjavík lagði til húsnæði og kaffiveitingar. Í forkeppninni í ár tóku rúmlega þrjú hundruð nemendur víðs vegar af landinu þátt, en þeim fjörutíu sem bestum árangri náðu þá var boðið til leiks í úrslitum. Hafa þeir nemendur fengið send æfingadæmi í vetur, til undirbúnings fyrir úrslitarimmuna.

Lokakeppnin samanstóð af sex verkefnum sem nemendur fengu fjóra tíma til að glíma við. Bestum árangri náðu þau í dæmi 1 og 2 en dæmi 2 hljómaði svona: Jafnhliða þríhyrningur RST er innritaður í jafnhliða þríhyrning ABC þannig að RS er hornrétt á AB. Finnið flatarmál RST með tilliti til ABC. Vitanlega þurfti rökstuðningur að fylgja svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert