Týndi áttum vegna lélegs skyggnis

mbl.is/Eggert

Björgunarsveitarmenn í Árnessýslu sækja nú karlmann sem villtist eftir gönguferð í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði fyrr í dag. Maðurinn hafði samband við lögreglu rétt eftir klukkan 16 í dag þegar hann hafði týnt áttum vegna lélegs skyggnis.

Allar björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út í kjölfarið, og komu um 200 manns að leitinni þegar mest var. Björgunarsveitarmönnum tókst að staðsetja manninn fyrir skemmstu og ganga nú til hans þar sem hann heldur kyrru fyrir, og hyggjast ganga með honum niður.

Viðar Arason, sem er í svæðisstjórn björgunarsveitanna í Árnessýslu, segir í samtali við mbl.is mikla snjókomu á svæðinu, og skyggni lélegt. „Maðurinn var einn á göngu og það gekk allt vel þar til skyggnið hjá honum gjörsamlega fór allt vegna snjókomu. Að sjálfsögðu týndi hann þá slóðanum því slóðinn hvarf í 40 sentímetra þykku lagi af snjó,“ útskýrir hann.

Að sögn Viðars ganga björgunarstörfin hægt, en örugglega, en margt ber að varast þegar gengið er í fjalllendi í miklum snjó enda snjóflóðahætta mikil. „Maðurinn er frekar hátt uppi en björgunarsveitarmennirnir ganga til hans og munu svo ganga með honum niður.“

Uppfært klukkan 19:25: Maðurinn er fundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert