Kvenkyns leikstjórum aðeins fjölgað um einn

Kristín Einarsdóttir
Kristín Einarsdóttir mbl.is/Eggert

Kvikmyndagerð er eitt síðasta vígi karlaveldisins þar sem iðnaðurinn birtir oft brenglaða mynd af heimi kvenna og fáar konur eru í stjórnunarstöðum. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi Landssambands Sjálfstæðiskvenna í dag sem bar yfirskriftina „Hver er þessi ýlandi dræsa hér?“ og fjallaði um stöðu kvenna í íslenskri kvikmyndagerð.

Meðal fyrirlesara var framleiðandinn Kristín Atladóttir sem tekið hafði saman lykiltölur um konur og kvikmyndir á síðustu árum. Hún greindi meðal annars frá því að í 18 af þeim 34 árum sem Kvikmyndasjóður hefur verið til leikstýrðu engar konur íslenskum kvikmyndum.

Sagði Kristín að þrátt fyrir að heildarfjöldi framleiddra kvikmynda hefði aukist um 100% frá milli tímabilanna 1980 til 1997 og 1998 til 2014 hefði kvenkyns leikstjórum framleiddra mynda aðeins fjölgað um einn milli tímabila.

„Eftir því sem ég kemst næst eru engar þeirra sem fyrir voru dánar. Menntaðir kvenkyns leikstjórar eru ekki horfnir og hefur þeim bara fjölgað,“ segir Kristín sem sagði ljóst að þó svo að konum með menntun í listrænni stjórnun fjölgaði mætti ekki greina þá fjölgun á þeim verkum sem iðnaðurinn sendir frá sér. „Því er óhætt að svara spurningunni um hvort jafnræði sé með kynjunum í kvikmyndaiðnaðinum með nei-i.“

Eru konur 15% þjóðarinnar?

Á síðasta ári voru níu kvikmyndir sem teljast íslenskar frumsýndar en þar af voru sjö sem sem gerðar voru á íslensku: Afinn, Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum, Borgríki 2: Blóð hraustra manna, Grafir og bein, Harrý og Heimir: Morð eru til alls fyrst, París Norðursins og Vonarstræti.

Kristín sagðist ekki þekkja til allra myndanna en benti á að bæði í Afanum og í Harrý og Heimi væru konurnar í svokölluðum nytjahlutverkum þar sem þeirra helsta hlutverk er að gefa karlmönnunum aukna vídd. Þá nefndi hún sérstaklega að engin kona væri í burðarhlutverki í einu leiknu barnamynd ársins, Algjör Sveppi og Gói Bjargar málunum.

Alls fóru 16 aðalhlutverk í höndum karla og fimm í höndum kvenna. 15 aukahlutverk voru í höndum kvenna en 43 í höndum karla.

„Af þessu má ætla að konur séu ekki nema 15 % íbúa þessa lands,“ sagði Kristín og bætti við að ástandið væri grafalvarlegt. „Þrátt fyrir að konur séu að ná árangri annarsstaðar sitja þær eftir í þessum heimi. Kvikmyndir færa með sér gríðarlegt áhrifavald, túlkunar- og mótunarvald og það er það sem fólk gefur síðast frá sér.“

Hún sagði þó að þessi valdamismunun væri ekki aðeins við lýði í kvikmyndaiðnaðinum sjálfum heldur einnig í framhaldsskólum landsins. Á árunum 2013 til 2014 hafi aðeins 9% meðlima í myndbandaráðum framhaldsskólanna verið stúlkur en 91% drengir.

Konur festast á millistigi

Kvikmyndaframleiðandinn Birna Einarsdóttir sagði fundarmönnum frá reynslu sinni af gerð heimildarmyndarinnar Höggið sem fjallar um sjóslys sem átti sér stað á jólanótt árið 1986 þegar sex menn fórust með MS. Suðurland. Myndina gerði Birna ásamt tveimur systrum sínum og sagði hún að þeim hefði aldrei dottið í hug að gera svo karllæga mynd ef leikarinn Stefán Karl Stefánsson hefði ekki komið með verkefnið á þeirra borð.

„Munurinn sem við finnum frá því að við hófum ferlið og síðan við kláruðum verkið er helst sá að fyrst töluðu allir um að það væru þrjár konur sem stæðu á bak við myndina. Núna þegar verkið er tilbúið talar það sínu máli,“ sagði Kristín.

Kristín sagði að konur festist í þeim störfum við framleiðslu kvikmynda sem eru á vissu millistigi. Sagði hún að vissu leiti eðlilegt að lítið væri af konum í ákveðnum störfum innan kvikmyndageirans, svo sem kvikmyndatöku, þar sem sum störf krefjist mikils líkamlegs styrks. Sagði hún einnig að hefðbundið fjölskyldulíf kvenna spilaði inn í enda sé kvikmyndagerð tímafrekt starf og ekki mjög fjölskylduvænt. Þá sagðist Kristín telja að fyrirmyndir skorti.

„Við vonum að [Höggið] sé hvatning til kvenna að gera fleiri myndir og að byggja upp tengslanet og hugsanlega að þetta hvetji til sérstaks stuðnings við konur,“ sagði Kristín.

„Umræða um kynjakvóta er jákvæð, þó svo að ég vilji að maður fái styrk af því verkið er gott en ekki vegna kyns. Einn daginn verðum við kannski komin þangað en þangað til má alveg hjálpa.“

Birna Einarsdóttir, kvikmyndaframleiðandi.
Birna Einarsdóttir, kvikmyndaframleiðandi. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka