Þurfa að snúast um afskriftir

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

„Viðræðurnar hófust formlega í gær og munu standa að minnsta kosti fram að páskum teljum við. Vonandi fæst niðurstaða fyrir þann tíma,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is en bæjarfélagið hefur hafið viðræður við kröfuhafa vegna slæmrar skuldastöðu þess.

Eins og komið hefur fram voru skuld­ir Reykja­nes­bæj­ar 248% sem hlut­fall af tekj­um í lok árs 2013 en sam­kvæmt lög­um um sveita­fé­lög mega þau ekki skulda meira en sem nem­ur 150% af reglu­leg­um tekj­um þeirra. Reykja­nes­bær þarf að leiðrétta skulda­stöðuna fyr­ir árs­lok 2021. Stærsti kröfuhafinn er þrotabú Glitnis að sögn Kjartans en aðrir eru lífeyrissjóðir og aðrir lánveitendur. Spurður hvort einhverjar viðræður séu í gangi við ríkið segir Kjartan að svo sé ekki. Stjórnvöld komi hvergi að málinu nema í gegnum samning við innanríkisráðuneytið frá síðustu áramótum meðal annars um bætt vinnubrögð við áætlanagerð og slíkt. „En það eru engin fjárframlög frá hinu opinbera eða eitthvað svoleiðis.“

Spurður hvort viðræðurnar snúist um lengingu í lánum segir Kjartan allt undir í þeim efnum. „Það hlýtur að vera ein leiðin sem þarf að skoða en það hjálpar okkur samt lítið því skuldir lækka ekkert við það og það er skuldaviðmiðið sem gildir í þessu. Sama hversu langan tíma er verið að borga þá fer skuldin ekkert. Það dugir okkur mjög skammt.“ Viðræðurnar muni því þurfa að snúast um afskriftir. 

Fundað verður á næstunni á meðan samningavilji er fyrir hendi. „Síðan kemur einhver niðurstaða og annað hvort er hún að við fáum einhverja niðurfellingu, sem ég veit ekkert hver kann að verða, eða við fáum hana ekki.“ Spurður hvað verði ef niðurfelling fæst ekki segir Kjartan að þá komi einfaldlega upp ný staða sem þurfi að fara yfir.

Hvað mögulegt greiðslufall varðar segir Kjartan þá stöðu geta komið upp í framtíðinni náist ekki að semja um skuldirnar. „Það gæti orðið inni í framtíðinni. Við erum ekki að tala um að við getum ekki borgað á morgun. Við erum búin að fjármagna þetta ár alveg og erum langt komin með 2016.“

Fréttir mbl.is:

„Ég skal bera ábyrgð á þessu öllu“

Mögulegt greiðslufall hjá Reykjanesbæ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert