Erfingjarnir fara fram á endurupptöku

Skýrsla starfs­hóps­ins var mjög ít­ar­leg.
Skýrsla starfs­hóps­ins var mjög ít­ar­leg. mbl.is/Rósa Braga

Lúðvík Bergvinsson, héraðsdómslögmaður, mun á morgun leggja inn end­urupp­töku­beiðni fyr­ir hönd erfingja Sævars Ciesielski og Tryggva Rúnars Leifssonar sem voru dæmdir í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­um. Verður farið fram á end­urupp­töku máls­ins til að sýna fram á sak­leysi þeirra.

Það verður svo í hönd­um rík­is­sak­sókn­ara að taka af­stöðu til þess hvort embættið mæli með því að end­urupp­taka verði veitt.

Eru þetta þriðju og fjórðu endurupptökubeiðnirnar í málinu, en í júní á síðasta ári fóru þau Erla Bolladóttir og Guðjón Skarphéðinsson, sem einnig voru dæmd í málinu, fram á endurupptöku.

Skýrsla starfs­hóps um Guðmund­ar- og Geirfinns­málið, sem var kynnt í mars 2013, er á meðal þeirra gagna sem eru lögð til grund­vall­ar end­urupp­töku­beiðninni. Í skýrsl­unni kom fram að það væri hafið yfir all­an skyn­sam­leg­an vafa að framb­urður allra þeirra sem hlutu dóm í mál­inu hefði verið óáreiðan­leg­ur eða falsk­ur. Veiga­mikl­ar ástæður væru fyr­ir end­urupp­töku.

Starfs­hóp­ur­inn sagði þrjár leiðir mögu­leg­ar. Ein var sú að rík­is­sak­sókn­ari meti hvort til­efni sé til end­urupp­töku.

Þá voru samþykkt lög á Alþingi í desember sl. sem heimila nán­um ætt­ingj­um lát­inna ein­stak­linga í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­um að leggja fram beiðni um að málið verði end­urupp­tekið fyr­ir dómi hvað þá varðar. Sævar og Tryggvi Rúnar eru báðir látnir, en það eru börn Sævars og ekkja og barn Tryggva Rúnars sem leggja fram beiðnirnar.

Davíð Þór Björg­vins­son er sett­ur rík­is­sak­sókn­ari í Guðmund­ar-og Geirfinns­mál­inu, en hann hefur óskað eftir lengri fresti til að  meta gögn máls­ins vegna beiðni um end­urupp­töku. Upp­haf­lega stóð til að skila niður­stöðu í janú­ar sl. en frest­ur var veitt­ur fram í mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert