Lúðvík Bergvinsson, héraðsdómslögmaður, mun á morgun leggja inn endurupptökubeiðni fyrir hönd erfingja Sævars Ciesielski og Tryggva Rúnars Leifssonar sem voru dæmdir í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Verður farið fram á endurupptöku málsins til að sýna fram á sakleysi þeirra.
Það verður svo í höndum ríkissaksóknara að taka afstöðu til þess hvort embættið mæli með því að endurupptaka verði veitt.
Eru þetta þriðju og fjórðu endurupptökubeiðnirnar í málinu, en í júní á síðasta ári fóru þau Erla Bolladóttir og Guðjón Skarphéðinsson, sem einnig voru dæmd í málinu, fram á endurupptöku.
Skýrsla starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, sem var kynnt í mars 2013, er á meðal þeirra gagna sem eru lögð til grundvallar endurupptökubeiðninni. Í skýrslunni kom fram að það væri hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður allra þeirra sem hlutu dóm í málinu hefði verið óáreiðanlegur eða falskur. Veigamiklar ástæður væru fyrir endurupptöku.
Starfshópurinn sagði þrjár leiðir mögulegar. Ein var sú að ríkissaksóknari meti hvort tilefni sé til endurupptöku.
Þá voru samþykkt lög á Alþingi í desember sl. sem heimila nánum ættingjum látinna einstaklinga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum að leggja fram beiðni um að málið verði endurupptekið fyrir dómi hvað þá varðar. Sævar og Tryggvi Rúnar eru báðir látnir, en það eru börn Sævars og ekkja og barn Tryggva Rúnars sem leggja fram beiðnirnar.
Davíð Þór Björgvinsson er settur ríkissaksóknari í Guðmundar-og Geirfinnsmálinu, en hann hefur óskað eftir lengri fresti til að meta gögn málsins vegna beiðni um endurupptöku. Upphaflega stóð til að skila niðurstöðu í janúar sl. en frestur var veittur fram í mars.