Víglundur Þorsteinsson, lögfræðingur og fyrrverandi forstjóri BM Vallár, hefur látið þýða á íslensku fundargerðir stýrihóps, sem settur var á stofn árið 2009 til að semja við erlenda kröfuhafa slitabúa gömlu bankanna.
Hefur Víglundur sent Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, og fjölmiðlum, þessar þýðingar ásamt minnisblaði Landslaga ehf. til stjórnar Fjármálaeftirlitsins sem dagsett er 12. júní 2009. Segir Víglundur, að þetta minnisblað sé sent í nafni Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra. Það minnisblað sé greinagott yfirlit um þær aðferðir sem beitt var til að sniðganga neyðarlögin og ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þeim.
Víglundur telur að stórfelld og margvísleg lagabrot hafi verið framin eftir að ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins um stofnúrskurði nýju bankanna í október 2008 var breytt. Þannig hafi erlendir „hrægammasjóðir“ hagnast um 300-400 milljarða króna á kostnað þjóðarinnar, ekki síst fyrir atbeina Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra.
Í tilkynningunni í dag kemur fram að fundargerðirnar og minnisblaðið sé „fróðleg lesning og haldgóð sönnun um þau brot sem að unnin voru sumarið 2009.“
Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.