Jarðvísindamenn í vísindamannaráði almannavarna treysta sér ekki til að ráðleggja opnun svæðisins við Holuhraun að svo stöddu. Vilja þeir fyrst bæta vöktun vegna hugsanlegra jökulflóða og gasmengunar.
Almannavarnir grundvalla lokanir svæða á hættumati sem vísindamenn undirbúa. Þeir hafa að undanförnu verið að endurmeta hættumatið sem var í gildi á meðan eldgos var í Holuhrauni. Eftir að gosi lauk hefur verið búist við að lokunum yrði breytt.
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, segir að það hafi verið vonbrigði að ekki skyldi vera hægt að opna hluta svæðisins. Hann á von á upplýsingum frá vísindamönnum í dag um hvaða tækjum og vöktun þeir telji þörf á til að geta mælt með opnun svæðisins. Þær verði væntanlega lagðar fyrir stjórnvöld til ákvörðunar. helgi@mbl.is